Fréttir / News

Jafnréttisþing og bráðadagur

  |   Fréttir af stofunni

Dagana 7.-8. mars 2018 stendur yfir jafnréttisþing á vegum félags- og jafnréttismálaráðherra og Jafnréttisráðs. Tveir lögmenn Réttar, Auður Tinna Aðalbjarnardóttir og Sigrún Ingibjörg Gísladóttir héldu erindi á þinginu í gær.

Erindi Auðar kallaðist „Misjöfn úrræði gegn mismunun – Ár í starfi lögmanns“ og í því fjallaði hún um tíu dæmi um mis­mun­un sem hún hef­ur upp­lifað á síðastliðnu ári í starfi sínu. Fjög­ur dæmi tengd­ust þjóðerni, tvö aldri og önnur tengdust mis­mun­un á grund­velli bú­setu, fötl­un­ar, efna­hags og kyns.

Mbl.is gerði umfjöllun Auðar að sérstöku viðfangsefni í fréttinni „Mismununin í samfélaginu oft falin“ sem má lesa hér. Þá má horfa á ræðuna í heild sinni á vefsíðunni YouTube, sjá hér.

Erindi Sigrúnar var hluti af palborðsumræðum undir heitinu „Equal treatment in law and practice“ og var flutt á ensku, sjá hér. Í erindinu fór Sigrún yfir það að aðgangur borgaranna að úrlausn um mismun hérlendis væri takmarkaður, bæði vegna skorts á kærunefndum um aðra mismunun en á grundvelli kynferðis og vegna túlkunar Hæstaréttar í seinni tíð á því hvað felst í banni við mismunun og ákvæðum um félagsleg réttindi. Þá væri vert að athuga að vegna skorts á kærunefndum eða öðrum svipuðum úrræðum væri hár málskostnaður fyrir dómi í reynd töluverð hindrun fyrir því að fólk leitaði réttar síns.

Af erindum lögmanna stofunnar er það einnig að segja á að föstudaginn 2. mars hélt Claudie Ashonie Wilson erindi á árlegum bráðadegi Landspítalans undir heitinu „Innflytjendur í heilbrigðiskerfinu á Íslandi: Báðum megin skurðarborðsins“. Í erindinu fór Claudie yfir reynslu sína sem viðtakandi heilbrigðisþjónustu hér á Íslandi, hlutverk innflytjenda í heilbrigðiskerfinu, bæði sem viðtakendur og veitendur þjónustunnar og loks mikilvægi menningarlegs næmis og að áhersla sé lögð á fjölbreytileika í námi í heilbrigðisvísindum.