Erindi Jónu Þóreyjar á Mannréttindaþingi
Jóna Þórey Pétursdóttir, lögmaður og fulltrúi á Rétti, fjallaði um mannréttindi og loftslagsbreytingar á mannréttindaþingi Mannréttindaskrifstofu Íslands sem haldið var í vikunni sem er að líða, þann 12. september 2023 á Grand Hotel.
Umfjöllunarefni mannréttindaþingsins var að þessu sinni áhrif loftslagsbreytinga á íslenskt samfélag og fólksflótti vegna þeirra. Jóna hélt erindi um áhrif loftslagsbreytinga á konur og réttinn til heilnæms umhverfis og var í pallborði ásamt Ragnheiði Elfu Þorsteinsdóttur, lektor við Háskólann á Akureyri og Evu Bjarnadóttur, teymisstjóra innanlandsteymis hjá UNICEF.
Í erindi Jónu kom fram að afleiðingar loftslagsbreytinga eru m.a. þær að valdaójafnvægi versnar og að loftslagsváin hefur ekki jöfn áhrif á öll. Mannréttindi eigi undir högg að sækja, þar á meðal rétturinn til bestu mögulegu heilsu og viðunandi lífsskilyrða og eykst kynbundið og kynferðislegt ofbeldi vegna loftslagsbreytinga. Í erindinu kom fram að loftslagsbreytingar hafa það í för með sér að umhverfi hverfur. Þangað mun fólk ekki geta aftur snúið og því er hreyfanleiki fólks staðreynd til framtíðar.
Til umfjöllunar var einnig hvar ábyrgðin vegna loftslagsvandans liggur. Kerfi sem byggja á að nýta fólk og nýta plánetuna með ósjálfbærum aðferðum sem bitna meðal annars á konum með óréttmætum hætti, svo sem ólaunuðum heimilis- og umönnunarstörfum kvenna. Jóna fjallaði einnig um alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum og hvernig nýta megi þann samning til grundvallar kynjuðum aðgerðum vegna áhrifa loftslagsbreytinga.
Um réttinn til heilnæms umhverfis sagði Jóna að í fyrra var rétturinn til heilnæms umhverfis viðurkenndur af Sameinuðu þjóðunum með yfirlýsingu um „the right to a clean, healthy and sustainable environment“. Réttur til umhverfis hefur verið viðurkenndur víða um heim lengi og er það í dag í yfir 155 löndum, þó íslensk stjórnskipan hefur ekki viðurkennt slíkan rétt sérstaklega. Rétturinn til umhverfis er nátengdur og samtvinnaður öðrum mannréttindum og sérstaklega réttindum kvenna og barna. Í réttinum til heilnæms umhverfis felst að tryggja loftgæði, loftslag, ferskvatnsgæði, líffræðilegan fjölbreytileika, tryggja umhverfi laust frá mengun og eiturefnum og tryggja heilsusamlegt umhverfi til lifnaðar, vinnu, leiks og búsetu.
Um skuldbindingar Íslands sagði Jóna að Ísland hefur lögfest Barnasáttmálann en í 24. gr. hans segir að ríki skulu tryggja rétt barns til besta heilsufars sem hægt er, m.a. með því að taka tillit til hættu á umhverfismengun og áhrifa af völdum hennar. Í samhengi við loftslagsbreytingar skipti þar máli að ríki losa gróðurhúsalofttegundir sem hafa neikvæð áhrif á börn annars staðar í heiminum út fyrir sín landamæri. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur kveðið á um að þau mannréttindabrot sem leiða af þessari mengun og áhrifum loftslagsbreytinga eru á ábyrgð þess ríkis sem uppruni losunarinnar stafar frá.