Fréttir / News

Læknir braut gegn barnshafandi hælisleitanda

  |   Fréttir af stofunni

Með ákvörðun sl. föstudag, 4. júní 2021 hefur embætti landlæknis staðfest að brotið hafi verið gegn albanskri konu, við læknismeðferð hennar, þegar hún var flutt úr landi, gengin tæpar 36 vikur á leið árið í nóvember 2019. Talsvert var fjallað um málið í fjölmiðlum á þeim tíma, sjá t.d. umfjöllun VísisRÚVMbl.is og Stundarinnar.

Claudia Ashanie Wilson, lögmaður og eigandi á Rétti, kvartaði fyrir hönd konunnar og fékk samþykki hennar til að greina frá ákvörðun embættis landlæknis í málinu. Fjallað var um niðurstöðuna á heimasíðu Ríkisútvarpsins og á Vísi og í kvöldfréttum Stöðvar 2, þar sem Claudia var til viðtals.

Í ákvörðuninni er fjallað um að læknirinn sem gaf út fit to fly vottorð fyrir konuna, til þess að hún gæti stigið um borð í flugvélina sem flutti hana burt, hafi ekki gætt að reglum sem eiga að tryggja heilbrigði og öryggi sjúklinga þegar hann veitti þjónustu sína og hafi þannig gerst sekur um þrenns konar brot.

Í fyrsta lagi hafi læknirinn ekki mátt gefa út fit to fly vottorð án þess skoða konuna við gerð vottorðsins. Ekki hafi verið nóg að viðkomandi hafi skoðað konuna vegna útgáfu annars sambærilegs vottorðs 13 dögum fyrr. Þetta hafi verið mikilvægt með hliðsjón af ástandi konunnar og því að hún átti langt ferðalag fyrir höndum. Landlæknir telur að nauðsynlegt hefði verið að ganga úr skugga um nákvæma meðgöngulengd, hvort hætta væri á fyrirburafæðingu eða líkur á blóðtappamyndun við þessar aðstæður.

Í öðru lagi þótti læknirinn ekki hafa virt faglegar takmarkanir sínar með því að hafa ekki leitað eftir aðstoð sérfræðings á viðkomandi sviði, svo sem til ljósmóður eða sérfræðings á sviði fæðinga- og kvensjúkdóma, sem hefðu getað metið ástand vegna hins langa ferðalags, mögulegrar fyrirburafæðingar eða hugsanlegra fylgisjúkdóma meðgöngu, t.d. meðgöngueitrunar.

Í þriðja lagi þótti læknirinn ekki hafa tryggt konunni fullnægjandi heilbrigðisþjónusta þar sem viðkomandi mat ekki þörf á aðkomu annarra starfsmanna í samræmi við samning 3. gr. Útlendingastofnunar og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um heilbrigðisþjónustu. Í þeirri grein segir að starfsfólk heilsugæslu skuli meta hvort þörf sé á aðkomu annarra sérfræðilækna og útbúa tilvísanir.

Í þessu voru talin felast brot gegn 1. mgr. 19. gr. og 5. mgr. 13. gr. laga nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn, 3. gr. reglna nr. 586/19911 um útgáfu læknisvottorða og 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 74/1994 um réttindi sjúklinga.

Í viðtali sínu hjá Stöð 2 sagði Claudia: „Það er alveg ljóst að læknirinn hefur brotið lög á margvíslegan hátt þannig að umbjóðandi minn mun halda áfram að leita réttar síns, sérstaklega í ljósi þess að hún er ennþá að lifa við afleiðingar þessa brota.“

Meðferð málsins tók rúma 16 mánuði vegna annríkis hjá embætti landlæknis.