Lögmenn Réttar á málstofu Mannréttindastofnunnar HÍ
Fyrir skömmu fór fram málstofa á vegum Mannréttindastofnunnar Háskóla Íslands um áhrif nýfallins dóms Mannréttindadómstóls Evrópu um skyldur ríkja varðandi aðgerðir í loftslagsmálum. Jóna Þórey Pétursdóttir, lögmaður og fulltrúi á Rétti, auk Kára Hólmars Ragnarssonar, lektor við Lagadeild HÍ og eigandi á Rétti, voru með erindi á málstofunni, ásamt Víði Smára Petersen, dósent við Lagadeild HÍ.
Tilefni málstofunnar var dómur yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Verein KlimaSeniorinnen Schweiz o.fl. gegn Sviss frá 9. apríl síðastliðnum, en niðurstaða dómstólsins var m.a. sú að 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu tæki til réttar einstaklinga til virkrar verndar stjórnvalda gegn alvarlegum áhrifum loftslagsbreytinga á líf, heilsu og lífsgæði. Með því að uppfylla ekki skyldur sínar til að grípa til fullnægjandi aðgerða til að takast á við loftslagsbreytingar hefði svissneska ríkið brotið gegn 8. gr. sáttmálans. Ennfremur taldi dómstóllinn að svissneska ríkið hefði brotið gegn 1. mgr. 6. gr. sáttmálans um rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.
Kári Hólmar fjallaði um nýja tíma í loftslagsdómsmálum, hver þróunin hefur verið og hverjar horfurnar eru í þeim efnum. Loftslagsmálum hefur fjölgað og er æ algengar að byggt sé á réttindaákvæðum. Þá fjallaði Kári um meginþætti KlimaSeniorinnen og hvernig Mannréttindadómstóllinn nálgaðist deiluefnið, að áhersla var lögð á aðalhlutverk lýðræðislegra stofnana, réttarríkið krefjist aðkomu dómstóla og að MDE geti ekki komist hjá því að líta til þess að komandi kynslóðir eigi ekki aðkomu að pólítískum stofnunum sem réttlæti enn fremur aðkomu dómstóla.
Erindi Jónu fjallaði um skyldur ríkja í ljósi dómsins, þar á meðal að dómurinn staðfestir að í friðhelgi einkalífs felist frelsi frá skaðlegum og neikvæðum umhverfislegum áhrifum á líf, heilsu, vellíðan og lífsgæði. Í því samhengi er meginskylda ríkisins að taka upp og beita með skilvirkum hætti, reglum og aðgerðum gegn núverandi og mögulega óafturkræfum afleiðingum loftslagsbreytinga. Þessi skylda kemur til vegna orsaksambands milli loftslagsbreytinga og þess að fá notið þeirra mannréttinda sem Mannréttindasáttmálinn tryggir, auk þess að sú réttarvernd verður að vera raunveruleg og skilvirk en ekki bara hugmyndafræðileg. Vísindi og viðmið Parísarsáttmálans leika þar lykilhlutverk.
Jóna fór einnig stuttlega yfir aðferðarfræði dómsins við að meta hvernig ríki uppfyllir skyldur sínar samkvæmt Mannréttindasáttmálanum til verndar mannréttindum frá neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga. Skiptir þar meðal annars máli að ríki þurfi að lágmarki að skilgreina losunarmörk útblásturs gróðurhúsalofttegunda og kolefniskvóta, að losun sé magngreind og þá hve mikið ríki megi losa í viðbót, og að þessi atriði séu nákvæm, tímasett og skýr.
Þá fjallaði Jóna stuttlega um atriði dómsins sem varða réttláta málsmeðferð og aðgengi að dómstólum, en dómurinn leggur sérstaka áherslu á mikilvægi félagssamtaka í að verja tiltekna málsstaði á sviði umhverfisverndar og sérstök tengsl við sameiginlegar og samræmdar aðgerðir í samhengi við loftslagsvána. Vettvangur félagasamtaka sé því mikilvægur til þess að ná fram leiðréttingu á aðgerðum og aðgerðarleysi stjórnvalda sem hafa skaðleg áhrif á réttindi borgaranna og því sé mikilvægt að tryggja aðgengi slíkra samtaka að dómstólum.
Víðir Smári Petersen fór yfir vangaveltur um eignarrétt og praktísk réttarfarsleg atriði þegar kemur að loftslagsdómsmálum. Víðir sagði dóminn leggja fram afar háan þröskuld fyrir einstaklinga til að koma að málum fyrir Mannréttindadómstólinn, en að staðan sé önnur þegar kemur að félagasamtökum. Þau njóti rýmri réttar en einstaklingar til að koma málum að samkvæmt dómnum og Víðir fjallaði um að staðan á Íslandi að þessu leyti kann að vera ófullnægjandi miðað við þær kröfur sem Mannréttindadómstóllinn gerir til þess að veita félagasamtökum aðgang að dómstólum. Víðir fór einnig yfir nokkur álitamál sem kvikna varðandi eignarréttindi og hvernig dómurinn blasir við að því leyti. Sagði hann að vernd eignarréttinda á almennt ekki að njóta forgangs gagnvart því markmiði að vernda umhverfið og berjast gegn loftslagsbreytingum. Því ætti dómurinn að gefa ríkjum aukið sjálfstraust í að setja reglur sem takmarka eignarrétt, en vandaðir lagasetningarhættir séu lykilatriði í þeim efnum.
Á dögunum fór Jóna Þórey, lögmaður á Rétti, einnig í viðtal hjá Morgunblaðinu vegna dómsins, og má finna fréttir vegna viðtalsins við hana hér.