Fréttir / News

Lögmenn Réttar í kennslu

  |   Fréttir af stofunni

Ýmsir lögmenn Réttar hafa látið að sér kveða í kennslu á skólaárinu 2017-2018.

Á vorönn 2018 eru tveir lögmenn stofunnar umsjóðarkennarar í háskólanámskeiðum á meistarastigi. Sigríður Rut Júlíusdóttir kennir nýtt námskeið við Háskólann í Reykjavík, sem kallast Entertainment Law. Þá kennir Sigrún Ingibjörg Gísladóttir námskeiðið EU-EEA Law I við Háskóla Íslands auk þess að vera leiðbeinandi í málflutningskeppni Orator.

Á haustönn 2017 voru tveir lögmenn stofunnar kennarar í námskeiðum á meistarastigi við Háskóla Íslands. Kári Hólmar Ragnarsson, sem nemur doktorsnám við Harvard háskóla, var umsjónarkennari námskeiðsins International Human Rights Law. Á sama tíma var Friðrik Ársælsson, aðjúnkt, kennari í námskeiðinu félagarétti I auk þess að vera umsjónarmaður með meistararitgerðum á sama sviði. Friðrik verður jafnframt gestafyrirlesari í apríl í meistaranámsleiðinni nýsköpun og viðskiptaþróun sem Háskóli Íslands býður upp á.

Einnig má nefna að Sigurður Örn Hilmarsson sinnti kennslu í réttarfari í löggildingarnámi fasteignasala við Endurmenntun Háskóla Íslands og samfélagslegri ábyrgð í námskeiðinu stefnumiðuð almannatengsl í MPA námi Háskóla Íslands á árinu. Áður hefur hann einnig sinnt kennslu í mannréttindum við Háskólann á Bifröst og úrlausn ágreiningsmála við Háskólann í Reykjavík. Þá var Claudie Ashonie Wilson gestafyrirlesari í nýju námskeiði hjá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, sem kallast stjórnun fjölbreytileika, í febrúar 2018.

Einn af styrkleikum Réttar er sú áhersla sem lögð er á fræðilega nálgun í öllum störfum stofunnar. Eigendur stofunnar telja að þátttaka lögmanna í umræðum, kennslu og fræðiskrifum um lögfræði sé nauðsynleg fyrir eðlilega framþróun réttarins og leggja áherslu á að styðja starfmenn við að leggja sitt af mörkum í þeim efnum.