Fréttir / News

Málþing til heiðurs Ragnari Aðalsteinssyni

  |   Fréttir af stofunni

Í dag birtist í Heimildinni grein rituð af Auði Jónsdóttur og Katrínu Oddsdóttur um Ragnar Aðalsteinsson, en greinin var skrifuð í tilefni af málþingi sem haldið verður til heiðurs Ragnari í hátíðarsal Háskóla Íslands á miðvikudaginn 2. apríl nk. klukkan 16:00. Málþingið er haldið í tilefni af 90 ára afmæli Ragnars í júní.

Rætur Réttar má rekja til ársins 1969 þegar Ragnar Aðalsteinsson stofnaði lögmannsstofu sína. Allt frá stofnun stofunnar hefur áhersla verið lögð á framgang réttarins með manngildishugsjón að leiðarljósi og veitir Réttur þannig fólki og félögum alhliða þjónustu í sókn og vörn réttinda sinna. Hugmyndafræðilegur grundvöllur Réttar er óbreyttur frá árdögum Ragnars Aðalsteinssonar í sjálfstæðri lögmennsku, þ.e. að lögmaðurinn gegni hlutverki bæði sem þjónn og verndari réttarins, ekki síst hvað varðar hagsmunagæslu fyrir almenning gagnvart sérhagsmunum, stórfyrirtækjum og ríkisvaldi. Í greininni sem birtist í Heimildinni er farið yfir áherslur og ævistarf Ragnars, kjarnahlutverk lögmannsins og svo margt fleira.

Erindi á málþinginu flytja Auður Jónsdóttir rithöfundur, Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari, Brynhildur Flóvenz dósent emerita við Lagadeild Háskóla Íslands og formaður MHÍ, Ragnar Tómas Árnason aðjúnkt við Lagadeild HÍ og fyrrverandi hæstaréttarlögmaður.

Að málþingi loknu býður Réttur upp á léttar veitingar.

Réttur hvetur öll til að mæta á málþingið og heyra erindi málflytjenda, og heiðra þannig Ragnar Aðalsteinsson, í tilefni stórafmælis hans. Nánari upplýsingar má finna á viðburði á Facebook, sem er aðgengilegur hér.