Málþing um loftslagsmál, mannréttindi og stríðsátök
Á morgun fer fram málþing um loftslagsmál, mannréttindi og stríðsátök sem haldið er af Ungum Umhverfissinnum, í samstarfi við Íslandsdeild Amnesty International, UNICEF, UN Women á Íslandi. Jóna Þórey Pétursdóttir, lögmaður hjá Rétti og mannréttindalögfræðingur, mun leiða málþingið og stýra umræðum í pallborði.
Málþingið er haldið í aðdraganda COP28 og er markmið þess að varpa ljósi á hvernig loftslagsbreytingar ýta undir átök og erfiðleika í ólíkum heimshlutum. Fjallað verður um hvernig samlegðaráhrif loftslagsbreytinga skapa ófyrirséðar áskoranir, og hvernig margföldunaráhrif loftslagsbreytinga ýta undir misrétti og mismunun.
Á málþinginu heyrum við rafræn erindi Alhassan Mohammed, frá Súdan, og Aili Keskitalo, talskonu Sama í Norður-Noregi, ásamt erindi frá Ágústu Guðmundsdóttur sem talar fyrir hönd Ungra Umhverfissinna.
Alhassan Mohammed, er talsmaður Fridays for Future í Súdan og hefur verið virkur aðgerðasinni í loftslagsmálum síðan 2019. Alhassan mun lýsa stöðunni í Súdan, áhrifum og afleiðingum loftslagsbreytinga á átök í Afríku, ásamt því að gefa okkur hugmynd um hvað landfræðilega norðrið getur gert til stuðnings. Alhassan sat COP27 í Egyptalandi og stefnir á að mæta á COP28. Aili Keskitalo er pólitískur ráðgjafi um frumbyggja, loftslag og umhverfi hjá Amnesty International í Noregi. Hún er fyrrverandi samískur leiðtogi og stjórnmálamaður með meira en 20 ára reynslu af alþjóðlegu samstarfi frumbyggja. Hún er með MPA frá Copenhagen Business School og býr með fjölskyldu sinni í Guovdageaidnu, Noregs-megin við Sápmi.
Að loknum erindum verða Alhassan Mohammed, Aili Keskitalo, Eva Bjarnadóttir frá UNICEF og Sara McMahon frá UN Women á Íslandi í pallborði.
Málþingið fer fram í Sigtúni 42 klukkan 16:30 og stendur yfir til 18:00 og má finna nánari upplýsingar um viðburðinn hér. Málþingið verður haldið á ensku og er aðgengi tryggt í húsnæðinu. Léttar veitingar verða í boði að málþinginu loknu.