Fréttir / News

Miskabætur vegna mistaka á spítala

  |   Fréttir af stofunni

Þann 17. apríl 2019 var í Héraðsdómi Reykjavíkur kveðinn upp dómur í máli þriggja systkina gegn íslenska ríkinu. Systkinin kröfðust þess að ríkið skyldi greiða þeim miskabætur vegna saknæmrar háttsemi heilbrigðisstarfsmanna á Landspítala, sem hefði leitt til andláts föður þeirra nokkrum árum fyrr. Fjallað er ítarlega um málið á forsíðu Fréttablaðsins og blaðsíðu fjögur í dag sem og á heimasíðu Vísis.

Landspítalinn og starfsmenn hans höfðu áður verið sýknaðir af ákæru um manndráp af gáleysi í refsimáli á grundvelli sömu atvika. Fjölskipaður og sérfróður héraðsdómur í máli systkinanna komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að einum starfsmanni yrði ekki kennt um þau mistök sem leiddu til andláts sjúklingsins hefði verið um uppsöfnuð eða ónafngreind mistök starfsmanna Landspítalans að ræða. Þannig hefði það falið í sér stórkostlegt gáleysi af hálfu heilbrigðisstarfsmanna að hafa slökkt á eftirlitstæki sem átti að gefa frá sér viðvörunarhljóð við fallandi súrefnismettun í tilfelli föður stefnenda. Dómurinn féllst því á að skilyrði skaðabótaréttar væru uppfyllt í málinu og systkinunum skyldu greiddar bætur.

Málið er einnig athyglisvert fyrir þær sakir að héraðsdómur féllst á greiðslu miskabóta til uppkominna barna við andlát foreldris.

Íslenska ríkið ákvað að áfrýja ekki niðurstöðu héraðsdóms.

Sigurður Örn Hilmarsson, einn af eigendum Réttar, flutti málið fyrir hönd systkinanna.