Fréttir / News

Níu kærur til MDE

  |   Fréttir af stofunni

Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna í gær var fjallað um það í öllum helstu fjölmiðlum landsins að níu konur hafi kært íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu, fyrir brot gegn réttlátri málsmeðferð í ofbeldismálum. Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, einn af eigendum Réttar, er lögmaður kvennanna níu.

Í umfjöllun kvöldfrétta Ríkisútvarpsins var greint frá því að kærendur hefðu kært nauðganir, heimilisofbeldi og kynferðislega áreitni og hefðu verið á aldrinum 17-44 ára á tíma brots. Meðal þeirra annmarka á réttlátri málsmeðferð sem kærurnar varðar eru langur rannsóknartími, fyrning mála, skýrslutökur ekki framkvæmdar eða seint og litið fram hjá játningum. Um málin sagði Sigrún við fréttastofu RÚV:

„Við lítum svo á að þarna sé allavega komin staðfesting á að það eru níu konur mjög ósáttar við málsmeðferð í málinu sínu og búið að benda á frekar nákvæma hluti hvað það var sem fór úrskeiðis. Þannig að við vonumst auðvitað til bara breytinga löngu áður en það liggur fyrir hvort Mannréttindadómstóllinn taki málið fyrir eða hver niðurstaðan verði.“

Á fyrri stigum var fjallað um málin á heimasíðu Réttar. Hér má lesa umfjöllun gærdagsins hjá Mbl.is, VísisStundarinnar, Iceland ReviewMannlífs og Stígamóta um málin.