Fréttir / News

Nýársfregnir 2021

  |   Fréttir af stofunni

Árið 2020 voru lögmenn Réttar – Adalsteinsson & Partners reglulega í fréttum og má hér finna nokkur áhugaverð mál.

Sakamál, skaðabótaréttur, vinnuréttur og tjáningarfrelsi áberandi í málflutningi:

Stór sakamál voru áberandi hjá stofunni á árinu sem leið og eru þar nærtækust sýkna dagmóður í máli sem Sigurður Örn Hilmarsson flutti í Landsrétti og jákvæð niðurstaða í máli tveggja ungra kvenna sem mótmæltu brottvísun umsækjanda um alþjóðlega vernd með því að standa upp og sýna samstöðu í flugvél árið 2016. Ragnar Aðalsteinsson hélt áfram flóknum málaferlum fyrir fyrrum fanga og afkomendur þeirra í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu og Auður Tinna Aðalbjarnardóttir flutti mál þar sem innflytjanda voru dæmdar miskabætur á grundvelli harðræðis lögreglu eftir frelsissviptingu.

Þá sneri Landsréttur við fyrri niðurstöðu í áberandi máli sem Sigurður Örn flutti og varðaði uppsögn leikara hjá Borgarleikhúsinu.

Félagaréttur og þjónusta við erlenda aðila:

Líkt og undanfarin ár fékk stofan jákvæðar umsagnir hjá helstu matsaðilum lögmannsstofa svo sem Chambers og Legal 500. Védís Eva Guðmundsdóttir, sem bættist í starfsmannahópinn á árinu fékk sérstaklega góða umsögn hjá Chambers, m.a. vegna sérþekkingar á Evrópurétti og félagarétti, en hún flutti einmitt mál á hinu síðarnefnda sviði með góðum árangri í september.

Annar nýr lögmaður á stofunni, Stefán Örn Stefánsson, vann að ýmsum stórum félagaréttarverkefnum, m.a. teymisvinnu við ráðgjöf vegna sölu íslenska tæknifyrirtækisins LS Retail. Í því máli var Réttur í samstarfi við Barclays Investment Bank og alþjóðlegu lögmannsstofuna White & Case LLP.

Þátttaka í almennri umræðu:

Líkt og fyrr gáfu lögmenn stofunnar álit á ýmsum málum og héldu fyrirlestra um lögfræðileg málefni. Þar má t.d. nefna að Ragnar fjallaði um traust almennings á dómstólum hjá Stundinni vegna Landsréttarmálsins svokallaða, hann og Sigrún Ingibjörg Gísladóttir fjölluðu um réttinn til að mótmæla hjá Grapevine og Sigrún fjallaði um stöðu starfsmanna sem snúa aftur til starfa að loknu foreldraorlofi, hjá DV.

Claudia Ashanie Wilson, sem líkt og áður kom fram varð einn af eigendum stofunnar á árinu, fjallaði um ýmislegt, m.a. lögreglumál og fjölmenningu í tilefni af black lives matter hreyfingunni hjá RÚV og samþætt jafnréttismál í tilefni af kvenréttindadeginum hjá Stundinni.

Árið 2021 byrjar einnig með virkri þátttöku lögmanna Réttar í umræðu þar sem Sigríður Rut Júlíusdóttir, Kári Hólmar Ragnarsson og Auður Tinna voru öll fengin til viðtals um lögfræðilegu hliðina á málefnum fráfarandi forseta Bandaríkjanna í útvarpsþáttunum SpeglinumMorgunvaktinni og Lestinni hjá RÚV.