Fréttir / News

Ragnar Aðalsteinsson í katalónskum fjölmiðlum

  |   Fréttir af stofunni

Þann 4. maí síðastliðinn tók Ragnar Aðalsteinsson hrl., einn af eigendum Réttar, þátt í ráðstefnu um stjórnarskrármálefni Katalóníu sem haldin var í Barselóna á Spáni.

Ráðstefnan var haldin að kvöldi til í formi fjölsótts opins fundar, þar sem Ragnar og dr. Ragnhildur Helgadóttir prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskólann í Reykjavík, héldu erindi. Meðal annars var fjallað um reynslu Íslands í stjórnarskrármálum, mikilvægi íbúalýðræðis og möguleika Katalóníu í stjórnarskrárgerð. Fundurinn var hluti af hálfsmánaðarlegri fundaröð, þar sem sérfræðingar frá löndum sem nýlega hafa fengist við endurskoðun stjórnarskráa hafa kynnt reynslu landa sinna.

Fyrr sama dag áttu Ragnar og Ragnhildur fund með utanríkisráðherra Katalóníu, Raül Romeva. Á fundinum, sem var meira en klukkutíma langur, var rætt um undirbúning mögulegrar stjórnarskrárgerðar í Katalóníu.

Þátttaka Ragnars á ráðstefnunni var í framhaldi af þátttöku hans á annarri katalónskri stjórnarskrárráðstefnu í júní í fyrra, sem einnig var fjallað var um hér á heimasíðu Réttar.

Spænska dagblaðið El Períódico tók viðtal við Ragnar um þátttöku hans á ráðstefnunni. Viðtalið má finna hér.

Þá tók katalónska sjónvarpsstöðin TV3 langt viðtal við Ragnar af sama tilefni, sem sýnt var í beinni útsendingu. Viðtalið má finna hér.