Réttur fagnar stefnumarkandi dómi Hæstaréttar um neikvætt félagafrelsi
Í liðinni viku kvað Hæstiréttur Íslands upp stefnumarkandi dóm í máli Ingibjargar Pálsdóttur og Fossatúns ehf. gegn Veiðifélagi Grímsár og Tunguár, en Sigurður Örn Hilmarsson, lögmaður og eigandi á Rétti, rak málið fyrir hönd áfrýjenda málsins. Málið var fordæmisgefandi um neikvætt félagafrelsi og takmarkanir á því í ljósi fyrirmæla 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Lyktir málsins voru áfrýjendum og skjólstæðingum Réttar í vil en Hæstiréttur sneri við fyrri niðurstöðum héraðsdóms og Landsréttar.
Í málinu kröfðust áfrýjendur þess að viðurkennt yrði að veiðifélaginu væri óheimilt að ráðstafa veiðihúsi félagsins að Fossási í Borgarbyggð til almenns gisti- og veitingarekstrar utan skilgreinds veiðitímabils skv. lögum um lax- og silungaveiði, án samþykkis allra félagsmanna, svo sem þeirra, þar sem það væri skylduaðild að félaginu. Áfrýjendur eiga aðliggjandi jörð sem fylgir veiðihlunnindi í Fossá og ber þeim þannig skylda að hafa aðild að veiðifélaginu. Hins vegar voru áfrýjendur jafnframt með eigin ferðaþjónustu á jörð sinni, Fossatún, sem stóð þannig í beinni samkeppni við gistirekstur veiðihússins utan tímabilsins.
Áfrýjendur töldu að veitingarekstur í veiðihúsi utan veiðitímabils rúmaðist ekki innan skilgreininga laga um lax- og silungaveiði um „skylda starfsemi“. Almennur gisti- og veitingarekstur í veiðihúsi stefnda stæði ekki í nánum tengslum við lögbundið hlutverk og markmið veiðifélagsins og fæli ekki í sér hagkvæma og arðbæra nýtingu eigna veiðifélagsins. Að mati áfrýjenda var kjarni málsins sá hvort að knýjandi samfélagslegar þarfir væru fyrir hendi til að takmarka félagafrelsi þeirra með útleigu á veiðihúsi stefnda utan veiðitímabils, þegar slík ákvörðun væri í andstöðu við vilja sumra félagsmanna.
Hæstiréttur féllst á sjónarmið áfrýjenda í dómi sínum, en rétturinn vísaði til sjónarmiða um meðalhóf og krafna um skýrleika lagaheimilda sem takmarka stjórnarskrárvarin réttindi, m.a. með hliðsjón af dómaframkvæmdar réttarins og Mannréttindadómstóls Evrópu. Þar sem skylduaðild að veiðifélagi væri lögbundin yrði að gera ríkar kröfur til þess að ráðstöfunarheimildir og ákvarðanataka félagsins sem takmarkaði eignarréttindi félagsmanna gegn þeirra vilja væru skýr og afdráttarlaus og gengu ekki lengra en nauðsynlegt væri til að ná markmiðum sem skylduaðildinni væri ætlað að tryggja.
Það vekur athygli í dóminum að Hæstaréttur gagnrýnir lagasetningu Alþingis, þegar breytingar voru gerðar á lögum um lax- og silungaveiði á árunum 2014 og 2015. Vísaði rétturinn m.a. til þess að Mannréttindadómstóllinn hefði áður undirstrikað mikilvægi þess að meta gæði lagsetningar og hversu vandað mat á nauðsyn lagasetningar hafi farið fram af hálfu löggjafarvaldsins við mat á takmörkun á mannréttindum, svo sem félagafrelsinu. Taldi rétturinn m.a. að breytingaákvæði sem komu inn í lögin síðastliðin ár vera í nokkru ósamræmi við hugtakanotkun í öðrum eldri ákvæðum laganna og þá grundvallarhugsun sem lá að baki setningu þeirra, um eignarheimildir veiðifélags og félagsmanna og ábyrgð félagsmanna á skuldbindingum sem stofnað væri til í rekstri veiðifélaga.
Hæstiréttur gagnrýndi jafnframt að löggjafinn hefði látið hjá líða að meta hvort lagabreytingin kynni að hafa áhrif á réttindi manna sem hefðu skylduaðild að veiðifélaginu og hvort að breytingin skerti rétt þeirra til neikvæðs félagafrelsis, en í lögskýringargögnum kom fram að löggjafinn teldi breytingarnar ekki hafa gefið tilefni til að skoða sérstaklega skuldbindingar sem leiddu af stjórnarskrá eða Mannréttindasáttmálanum. Taldi Hæstiréttur að ríkt tilefni hefði verið til að gæta sérstaklega að þessu, enda var slíkt mat grundvöllur fyrir setningu laganna um lax- og silungaveiði árið 2006. Hæstiréttur taldi að löggjafinn hefði ekki sinnt stjórnskipulegri skyldu sinni til að gæta að því hvort að breytingarlöggjöfin hefði rúmast innan þeirra marka sem stjórnarskráin setur.
Hæstiréttur taldi ennfremur að veiðifélagið hefði ekki sýnt fram á að útleiga veiðihússins að Fossási utan skilgreinds veiðitímabils til almenns gisti- og veitingarekstrar fæli í sér nýtingu og ráðstöfun á eignum félagsins með sem arðbærustum hætti fyrir félagsmenn og að hún teldist nauðsynleg til þess að félagið geti náð þeim markmiðum sem skylduaðild að því væri ætlað að tryggja. Ráðstöfun félagsins yrði því ekki talin heimil nema með samþykki allra félagsmanna sinna.
Réttur fagnar niðurstöðu Hæstaréttar og óskar áfrýjendum málsins til hamingju með sigurinn. Niðurstöðu Hæstaréttar má finna á heimasíðu réttarins, auk þess sem MBL birti frétt um niðurstöðuna sem er aðgengileg hér.