Réttur í fyrirsvari fyrir hóp aðstandenda þeirra er létust í snjóflóðinu í Súðavík 1995
Eins og komið hefur fram í fréttum nýverið fer Sigurður Örn Hilmarsson, eigandi og lögmaður á Rétti, fyrir hópi þrettánmenninga sem eiga það sammerkt að hafa misst aðstandendur í snjóflóðinu á Súðavík árið 1995. Nýverið sendi hópurinn kröfubréf til forsætisráðherra með ákalli um að ráðherra beitti sér fyrir því að atburðarrásin mannskæða yrði loksins rannsökuð ofan í kjölinn með hliðsjón af aðgerðum viðbragðsaðila áður en flóðið féll, forsendum þágildandi hættumats fyrir svæðið, eftirfarandi viðbrögðum stjórnvalda á sínum tíma og skorts á beitingu rannsóknarheimilda sem voru fyrir hendi á þeim tíma. Að undangenginni athugun Réttar og Heimildarinnar virðist ljóst að önnur málsmeðferð hefði getað firrt því manntjóni sem varð umrætt sinn.
Þá hefur lögmaðurinn velt því upp í fyrrnefndu bréfi hvort íslenska ríkið hafi brugðist skuldbindingum sínum skv. mannréttindasáttmála Evrópu um að verja og varna tjóni á mannslífum á þekktu snjóflóðasvæði, með hliðsjón af dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins í álíka málum.
Hafa aðstandendur ítrekað óskað eftir nánari athugun á atburðarrásinni en ávallt mætt mótstöðu í kerfinu, fyrr en nú að loknum fundi með forsætisráðherra Íslands, Katrínu Jakobsdóttur. Samþykkti forsætisráðherra að vinna greinargerð um málið til að meta næstu skref andspænis kröfum aðstandendanna og þeim gögnum sem sú athugun byggir á. Yrði heimild til skipunar rannsóknarnefnd skoðuð í ljósi niðurstöðu greinargerðarinnar.
Umfjöllun um málið má sjá hjá Heimildinni hér og hér sem og hjá Vísi hér.
Mynd: Fengin úr frétt Heimildarinnar um málið (ljósmyndari ótilgreindur)