Sigríður Rut skipuð héraðsdómari
Nýlega var frá því greint að Sigríður Rut Júlíusdóttir, stofnandi Réttar ásamt Ragnari Aðalsteinssyni og eigandi að stofunni til síðustu 19 ára hefði verið metin hæfust umsækjenda í embætti héraðsdómara við Héraðsdóm Reykjavíkur, og hefði verið skipuð sem dómari í kjölfarið. Stjórnarráðið og Vísir hafa m.a. fjallað um málið og það að Rut hafi verið talin hæfust níu umsækjenda.
Framlag Rutar til lögmennsku á Íslandi hefur verið mikilsvert og hefur hún flutt ýmis grundvallardómsmál, m.a. á sviði fjölmiðla- og tjáningarfrelsisréttar svo sem fjallað hefur verið um á heimasíðu Réttar. Þá hefur Rut leitt þungavigtarstörf stofunnar við ráðgjöf á sviði höfundaréttar undanfarin ár, en aðrir lögmenn úr sama verkefnateymi, einkum meðeigendur hennar, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir og Sigurður Örn Hilmarsson, munu taka við störfum hennar á því sviði. Reynsla lögmannanna af höfunda- og samningarétti mun nýtast vel í þessum lykilþætti starfsemi stofunnar.
Réttur óskar Rut og fjölskyldu hennar innilega til hamingju með áfangann. Hennar verður saknað úr lögmennsku en kraftar hennar munu vafalaust nýtast vel á nýjum starfsvettvangi.