Sigurður Örn í Heimildinni um afleiðingar valdbeitinga lögreglu
Sigurður Örn Hilmarsson, einn eigenda Réttar og formaður Lögmannafélags Íslands, var til viðtals vegna forsíðufréttar Heimildarinnar um valdbeitingu og afleiðingar valdbeitingar lögreglu. Í umfjöllun Heimildarinnar er sagt frá máli Ívars Arnar Ívarssonar sem varð fyrir alvarlegu líkamstjóni í tengslum við handtöku lögreglu þegar hann var í geðrofi.
Sigurður Örn telur mannréttindi Ívars hafa verið brotin og segir undirliggjandi sjónarmið um mannlega reisn eiga við í málum sem þessum. Alvarlegt líkamstjón hafi orðið á frelsissviptum einstaklingi og sagðist Sigurður telja að það leiði af lögum og Mannréttindasáttmála Evrópu að í þeim aðstæðum þurfi að gera ríkar kröfur til rannsóknar á slíkum málum. Það sé ekki fullnægjandi að líta svo á að málið sé óljóst eða illa upplýst og því fái sá sem varð fyrir skaðanum engar bætur.
Þá var rætt við Sigurð Örn í beinni útsendingu í fréttaþætti Heimildarinnar, Pressu, í dag um málið. Sigurður sagði að ríkið beri ríka ábyrgð á þeim einstaklingum sem ríkið hefur svipt sjálfsbjargarrétti sínum með höftum og frelsissviptingu. Lögreglumenn gegni erfiðu starfi, verkefni þeirra séu flókin og umfangsmikil og er þeim falin heimild til að beita valdi. Það reyni á gæsku, þolinmæði og mannlega þætti sem skipti miklu máli við framkvæmd starfans.
Dómur Hæstaréttar frá nóvember 2020 vakti athygli Sigurðar á sínum tíma og hefur hann notað málið við kennslu í skaðabótarétti á undanförnum árum. Í viðtalinu benti Sigurður á að lögunum hefur verið breytt og auknar skyldur til rannsóknar lagðar á ríkið.
Þá fjallaði Sigurður um neikvæðar skyldur ríkisvaldsins um að valda ekki tjóni og halda að sér höndum, en einnig jákvæðar skyldur ríkisins þegar skaði verður þar sem ríkinu beri að rannsaka sérstaklega þegar frelsissviptir einstaklingar verða fyrir líkamstjóni. Sigurður segist bjartsýnn á að gert verði betur, til dæmis mætti styrkja nefnd um eftirlit með störfum lögreglu enn frekar. Gagnrýnir hann að lögregla sé fáliðuð og að lögreglumönnum fari fækkandi, forgangsröðun í löggæsluverkefnum þurfi að bæta auk þess að lyfta þurfi grettistaki í fangelsismálefnum og málefnum fanga.
Nálgast má forsíðufrétt Heimildarinnar hér og viðtalið við Sigurð í Pressu hér.