Sigurður Örn í viðtali um trúarritabrennur í Morgunútvarpinu
Sigurður Örn Hilmarsson, eigandi á Rétti og formaður Lögmannafélagsins, var í Morgunútvarpinu í morgun að ræða um trúarritabrennur, en nokkuð hefur borið á kóranbrennum í Danmörku og Svíþjóð undanfarið og hafa stjórnvöld í Danmörku tekið ákvörðun um að banna slíkar brennur á opinberum stöðum með lögum. Í viðtalinu var til umræðu hvernig þessum málum væri háttað hér á landi og hvort það megi brenna trúarrit á Austurvelli án afleiðinga.
Í viðtalinu fjallaði Sigurður um mikilvægi tjáningarfrelsisins og að slíkt frelsi væri einn af hornsteinum lýðræðisríkja. Í tjáningarfrelsinu felst m.a. rétturinn til þess að tjá óvinsælar skoðanir, að móðga, ögra og mótmæla, en það er þó ekki ótakmarkað, enda má takmarka tjáningarfrelsið ef það er nauðsynlegt í lýðræðisríki og gert samkvæmt lögum.
Þá kom til umræðu hvort að trúarritabrennur gætu fallið undir einhverja lögfesta takmörkun á tjáningarfrelsinu hér á landi, enda er hvergi beinlínis kveðið á um slíkt bann í íslenskum lögum. Í þessu samhengi kom til umræðu refsiákvæði um guðlast sem var afnumið úr lögum árið 2015 sem og umdeilt refsiákvæði í almennum hegningarlögum sem felur það í sér að bannað sé að móðga eða smána erlenda þjóðhöfðingja.
Sigurður fjallaði um það hvort að trúarritabrennur gætu hugsanlega talist hatursorðræða, en að það sé ekki ljóst, eins og hefur verið fjallað mikið um í Danmörku og Svíþjóð undanfarið, þar sem trúarritarbrennur hafa frekar talist beinast að trúarkenningum eða hugmyndum, en ekki að einstaklingi eða hópi fólks og þar af leiðandi ekki talist falla undir hatursorðræðu eða -tjáningu. Slíkt réðist þó af heildstæðu mati á aðstæðum og gæti þar mögulega skipt máli hvort önnur tjáning eða aðrar aðstæður kæmu fram samhliða brennunni.
Sigurður fjallaði um það að ríki í Evrópu séu að reyna að finna milliveginn á milli þess að vernda tjáningarfrelsið og á sama tíma gæta að réttindum borgara sinna sem verða fyrir andúð í samfélaginu og að tryggja friðhelgi einkalífs þeirra. Sigurður segir að ríkjum sé skylt að sjá til þess að sambýli fólks með ólíkar skoðanir geti verið til og að það sé lína á milli þessara réttinda sem ríki séu að reyna að finna, en að það sé spurning hvar hún er.
Að lokum fjallar Sigurður um bókabrennurnar sjálfar sem tjáningu. Hafa þeir sem brenna bækur eitthvað efnislegt að segja? Segir bókabrennan sem slík allt sem segja þarf?
Viðtalið er aðgengilegt til hlustunar hér.