Sigurður Örn ræðir réttarhöld í Gullhömrum í Morgunútvarpinu
Í morgun var Sigurður Örn Hilmarsson, formaður Lögmannafélags Íslands og eigandi á Rétti í Morgunútvarpinu á Rás 2 að ræða um réttarhöldin sem nú fara fram í veislusal í veitingahúsinu Gullhömrum í Grafarholti í svokallaða Bankastræti-Club málinu.
Réttarhöldin eru einhver umfangsmestu réttarhöld sem hafa farið fram hér á landi. Sigurður sagði réttarhöldin óvenjuleg að mörgu leyti vegna fjölda sakborninga því hafi það verið eðlileg ráðstöfun að finna rými sem ber svo yfirgripsmikið mál. Í því samhengi skipti einnig máli að dómþing skulu háð í heyranda hljóði, almenningur eigi rétt á að mæta og fylgjast með og þurfi aðstaðan að gera ráð fyrir því.
Sakborningur dró játningu til baka í gær og aðspurður segir Sigurður að slíkt getur komið upp við rekstur dómsmála og mál þróist við meðferð fyrir dómi. Sigurður minnti á að mikilvægt er að samsama ekki verjanda með sakborningi sínum þegar fjallað er um sakamál, þar á meðal þegar fjallað er um uppákomur sem þessar. Sigurður var spurður um hvað dómari mætti lesa í það að játning sé dregin til baka og sagði hann að óstöðugleiki í framburði geti haft þýðingu við heildarmat dómara á sönnun. Það sé þekkt í dómaframkvæmd að framburður breytist í sakamálum, til dæmis að framburður hjá lögreglu sé dregin til baka fyrir dómi. Þá þurfi að fara varlega í að líta eingöngu á játningar til grundvallar sekt og líta þurfi til annarra gagna og leggja heildarmat á málið.
Að lokum fjallaði Sigurður um að lögmenn, sækjendur og dómendur vilja betri dómhús. Héraðsdómur Reykjavíkur sé í gömlu bankahúsi sem henti illa og að Landsréttur sé í tímabundnu húsnæði í Kópavogi sem hýsti áður Siglingamálastofnun. Það skipti gríðarlegu máli að byggja almennilega undir dómstólana, aðstaða þurfi að vera til sóma og henta þeim sem þar starfa. Aðspurður um húsnæðisþörf og vægi fjarfundabúnaða við framkvæmd réttarhalda sagði Sigurður að þó fjarfundabúnaður kunni að koma að gagni, svo sem í COVID, sé mikilvægt að skýrslutökur fari fram í persónu. Þannig sé milliliðalaus sönnunarfærsla tryggð og er nauðsynlegt að húsnæði geri ráð fyrir því. Ef ekki geta vitni verið í ólíkri aðstöðu þegar þau gefa vitnisburð og tók Sigurður dæmi erlendis frá þegar kona sem var þolandi heimilisofbeldis gaf skýrslu í gegnum fjarfundabúnað en maðurinn hennar, sem ásakaður var í málinu, var inni í íbúðinni með henni á tíma skýrslugjafarinnar til að hafa áhrif á framburð hennar. Var hann handtekinn af lögreglu þegar upp komst um þetta.
Hér má sjá frétt RÚV um viðtalið við Sigurð og hlusta má á viðtalið í heild sinni hér, frá mínútu 49:30.