Fréttir / News

Sögulegu markmiði náð á aðalfundi LMFÍ

  |   Fréttir af stofunni

Á aðalfundi Lögmannafélags Íslands þann 24. maí síðastliðinn var samþykkt ný ályktun um hlutverk félagsins þegar kemur að mannréttindum.

Undir liðnum önnur mál flutti Ragnar Aðalsteinsson hrl. tillögu sína og Hákons Árnasonar hrl. um að fella úr gildi eldri ályktun Lögmannafélagsins frá 10. mars 1995 þess efnis að það samrýmdist ekki tilgangi félagsins að gefnar séu út álitsgerðir um umsagnir eða ályktanir þar sem pólitísk afstaða er tekin í nafni félagsins í umdeildum þjóðfélagsmálum.

Líflegar umræður áttu sér stað og að lokum lagði Guðni Haraldsson hrl. fram nýja tillögu, byggða á tillögu Ragnars sem var svohljóðandi:

„Aðalfundur Lögmannafélags Íslands, haldinn hinn 24. maí 2017, ályktar að það sé og verði ávallt hlutverk Lögmannafélags Íslands að taka afstöðu til pólitískra ákvarðana stjórnvalda á hverjum tíma ef þau varða mannréttindi þegnanna.“

Tillagan var samþykkt samhljóða og með lófaklappi. Fjallað er um þetta í nýjasta tölublaði Lögmannablaðsins, sjá hér á bls. 12-13.

Vísir hefur einnig fjallað um ályktunina, sjá hér, en í viðtali við fjölmiðilinn sagði Ragnar að honum hafi þótt þetta söguleg stund og að það skipti hann miklu máli að Lögmannafélagið sé ekki háð stjórnmálaflokkum að neinu leyti.