Fréttir / News

Styrkur úr þróunarsjóði innflytjendamála

  |   Fréttir af stofunni

Réttur – Aðalsteinsson & Partners hlaut styrk úr þróunarsjóði innflytjendamála þann 6. júní síðastliðinn. 72 umsóknir bárust sjóðnum þetta árið og voru 23 verkefni samþykkt. Umsókn Réttar snýr að gerð rannsóknar um jafnrétti innflytjenda á atvinnumarkaði og möguleika innflytjenda til atvinnu innan stjórnsýslunnar.

Markmið rannsóknarinnar verður nánar tiltekið að kanna hvort innflytjendur hafi raunhæfa möguleika og jöfn tækifæri til atvinnuþátttöku innan stjórnsýslunnar og hjá hinu opinbera, að teknu tilliti til núverandi lagaumhverfis. Bendi niðurstaða rannsóknarinnar til þess að lög og stefna stjórnvalda leiði til takmörkunar eða útilokunar, þá verða lagðar fram tillögur að úrbótum til að tryggja jafnt aðgengi lögum samkvæmt.

Claudie Ashonie Wilson og Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, lögmenn Réttar og sérfræðingar á sviði útlendingaréttar, tóku við styrknum fyrir hönd Réttar á móttöku í veitingahúsinu Nauthóli. Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra og Tatjana Latinovic, formaður innflytjendaráðs stýrðu athöfninni. Fjallað hefur verið um úthlutunina á vef velferðarráðuneytisins og þá má lesa um aðra styrkþega hér.

Vænta má þess að niðurstöður rannsóknarinnar liggi fyrir innan árs.