Fréttir / News

Þungamiðja dóma Hæstaréttar um stóru afrétti Íslands á sér hvorki sögulega né lagalega stoð samkvæmt nýrri rannsókn

  |   Fréttir af stofunni

Á dögunum birtist grein eftir Ragnar Aðalsteinsson hrl. í Árbók lagadeildar Háskólans á Akureyri. Greinin ber heitið „Eign og afréttur“ og er fyrsta rannsóknargrein síðari ára sem fjallar um eignarhald á afréttum.

Eins og margir vita eru afréttir þau landsvæði sem bændur reka búfé sitt á yfir sumartímann. Kannast margir við að taka þátt í göngum og réttum á haustin þegar rekið er af afréttunum. Færri vita þó að stærsta deila Íslandssögunnar um eignarrétt yfir landi hefur meðal annars varðað þessa afrétti og hófst deilan fyrir alvöru árið 1998, þ.e. við setningu þjóðlendulaga og stofnun óbyggðanefndar. Eftir málsmeðferð nefndarinnar og dómstóla á landsvæðum á Íslandi er íslenska ríkið nú eigandi langflestra þessara afrétta. Bændur og aðrir landeigendur hafa hinsvegar verið taldir handhafar svokallaðrar „afréttareignar“ eða takmarkaðra eignarréttinda yfir afréttunum.

Rannsóknarniðurstöður Ragnars eru athygliverðar og fela meðal annars í sér að það form afrétta sem fyrirfinnst á Íslandi sé séríslenskt fyrirbæri. Hinir íslensku afréttir, í réttum lagaskilningi þess hugtaks, hafi tvímælalaust verið háðir beinum einkaeignarrétti. Með niðurstöðum sínum um hina stóru sameiginlegu afrétti hafi Hæstiréttur því breytt eignarhaldi ríkinu í hag og takmarkað rétt bænda og annarra landeigenda stórlega.

Ragnar fjallar einnig um notkun afréttanna og kemst að þeirri niðurstöðu að engar heimildir bendi til að landeigendur hafi látið af nýtingu afréttanna. Þá séu heldur engar heimildir fyrir því að eignarfyrirkomulagið hafi breyst og þannig stofnast takmarkaður afnotaréttur í stað fullkomins eignarréttar. Ragnar gagnrýnir einnig að Hæstiréttur hafi ekki tekið efnislega afstöðu til þess hvort eignarréttur hafi stofnast yfir afréttunum fyrir hefð.

Ragnar telur á grundvelli rannsókna sinna að hugtakið „afréttareign“ eigi sér hvorki sögulega né lagalega stoð, en þetta hugtak hefur Hæstiréttur lagt ofuráherslu á í niðurstöðum sínum í þjóðlendumálunum.

Að lokum veltir Ragnar upp þeirri spurningu hver séu hin raunverulegu réttindi hinna svokölluðu „afréttareigenda“ og hvernig þau réttindi vegist á við rétt ríkisins yfir afréttunum. Telur Ragnar að dómstólar muni þurfa að kveða skýrt á um inntak þessara réttinda.

Rannsókn Ragnars gæti vakið áhuga landeigenda á Íslandi. Bæði þeirra landeigenda sem eiga eftir að verjast fyrir óbyggðanefnd og dómstólum sem og þeirra sem hafa nú þegar fengið nafngiftina „afréttareigendur“ samkvæmt dómsorði héraðsdómstóla og Hæstaréttar.

Greinin verður gerð aðgengileg á vef lagadeildar Háskólans á Akureyri á nýju ári.