Umfjöllun um meðferð kynferðisbrotamála hjá Mannréttindadómstól Evrópu
Í síðasta tölublaði Heimildarinnar þann 28. júní 2024 var rætt við Jónu Þóreyju Pétursdóttur, lögmann hjá Rétti, um málsmeðferð kynferðisbrotamála hjá Mannréttindadómstól Evrópu. Réttur fer með mál fyrir dómstólnum fyrir hönd kvenna sem urðu fyrir kynferðisbrotum hér á landi en fengu ekki áheyrn íslenskra dómstóla.
Eins og fram kemur í umfjöllun Heimildarinnar hefur dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu staðfest að það brjóti gegn Mannréttindasáttmálanum að láta kynferðisbrot viðgangast refsilaust. Bæði 3. gr. sáttmálans um bann við ómannúðlegri meðferð og pyndingum, auk 8. gr. sáttmálans um friðhelgi einkalífs eru þá undir.
Í viðtali við Heimildina staðfestir Jóna Þórey að sáttaumleitanir voru fullreyndar áður en leitað var til Mannréttindadómstólsins í þeim málum sem Réttur fer með. Þá sé gagnaöflun lokið og nú sé aðeins beðið eftir niðurstöðu dómstólsins í málunum. Málaþungi hjá dómstólnum sé verulegur en vonast er eftir niðurstöðu sem allra fyrst.
Nánar má lesa um rannsókn Heimildarinnar í síðustu útgáfu og hér á vefsvæði Heimildarinnar.
Myndir: Heimildin/Golli