Fréttir / News

Vandaðir þættir Katrínar um flóttamenn

  |   Fréttir af stofunni

Um nýafstaðna páskahelgi lék Rás 1 þrjá útvarpsþætti undir nafninu Fólkið bak við flóttann. Í hverjum þætti var tekin fyrir saga einstaklings sem hefur sótt um hæli hérlendis og fengið vernd í kjölfarið. Allir einstaklingarnir eru fyrrum skjólstæðingar Réttar en Katrín Oddsdóttir, sem var lögmaður þeirra á sínum tíma, var umsjónarmaður þáttanna.

Í fyrsta þættinum var sögð saga Yagout Suliman frá Súdan, sem sætti ofsóknum á grundvelli stjórnmálaskoðana í heimaríki sínu. Að þætti loknum var fjallað frekar um málið hér.

Í öðrum þættinum var fjallað um mál Evelyn Glory Joseph frá Nígeríu, sem sætti ofbeldi á grundvelli kyns. Í þættinum var einnig fjallað um mann Evelyn, Tony Omos og það hvernig lekamálið svokallaða hefur haft áhrif á þau og syni þeirra tvo. Fjallað var frekar um áhrif málsins á fjölskylduna hér.

Í þriðja og síðasta þættinum sagði Atila Askarpour sögu sína. Hluti af sögu hans er stórmerkileg raunasaga um endursendingu til Grikklands, þar sem hann dvaldi mánuðum saman í fangelsi. Áður höfðu fjölmiðlar fjallað um skaðabótamál Atila hér.

Réttur hvetur alla til að hlusta á þessa vel unnu og manneskjulegu þætti, sem veita góða innsýn í heim umsækjenda um alþjóðavernd og þau kerfi sem vinna úr umsóknum þeirra.