Viðtal við Sigurð Örn í Morgunútvarpinu vegna mögulegrar hryðjaverkaógnar
Sigurður Örn Hilmarsson, einn af eigendum Réttar og formaður Lögmannafélags Íslands, fjallaði um refsiramma hryðjuverka í Morgunútvarpinu á Rás 2 undir lok síðustu viku. Ingvar Björnsson og Snærós Sindradóttir tóku viðtalið við Sigurð vegna handtöku manna sem eru samkvæmt fréttaflutningi grunaðir um skipulagningu hryðjuverkárásar á Ísland og vopnalagabrot.
Þar greindi Sigurður frá því að í almennum hegningarlögum er mælt fyrir um að hryðjuverk geti varðað við ævilöngu fangelsi. Benti hann á að hægt er að refsa fyrir tilraun til að fremja hryðjuverk og undirstrikaði skilin á milli tilrauna, skipulagningu og fullframningu brota:
„Við dæmum fólk ekki eða refsum því fyrir hugsanir þess heldur þarf meira til. Það eru þá raun og veru aðgerðir. Að hugmyndirnar séu komnar á framkvæmdastig. […] Ákvæðið um hryðjuverkabrot er margþætt. Í fyrsta lagi eru það hryðjuverkabrot, sá sem fremur hryðjuverk í þeim tilgangi að valda almenningi verulegum ótta eða þvinga með ólögmætun hætti íslensk eða erlend stjórnvöld til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert. Brotin felast þá í manndrápi, líkamsárás, frelsissviptingu, röskun á umferðaröryggi og öðru slíku. Svo eru líka ákvæði sem banna fjármögnun hryðjuverkastarfsemi og svo að lokum 100. gr. c sem mælir fyrir um það að hver sem í liðsinni orði eða verki, hvatningu, fortölum eða á annan hátt styður refsiverða starfsemi eða sameiginlegt markmið félag eða hóps, sem framið hefur eitthvað hryðjuverkabrot.“
Gerði þannig Sigurður það skýrt í viðtalinu að brot þurfa almennt að vera fullframin og óljóst sé hversu langt skipuleggjendur hins meinta hryðuverks hafi verið komnir í áætlunum sínum sem lögreglan rannsakar nú:
„Svona brot er í eðli sínu tjónsbrot, það er líka til eitthvað sem heitir hættubrot þar sem þú skapar hættu á tjóni síðar meir. […] Rétt er að geta þess að þessir menn eru grunaðir um þessi brot, svo virðist sem að rannsókn lögreglunnar sé umfangsmikil og hafi staðið yfir í langan tíma, við vitum ekki hvaða gögn lögreglan hefur undir höndum og hversu langt þessar hugsanlegu fyrirætlanir voru komnar.“
Sigurður veltir upp orðalagi ákvæðis almennra hegningarlaga um hryðjuverk:
„Það er áskilnaður í lögunum að fremja hryðjuverk, en þarna gæti komið til skoðunar hvort um sé að ræða einhverskonar tilraun til þess að fremja hryðjuverk. […] Það kann að vera að það séu aðrar reglur sem nái utan um þetta, svo sem löggjöf um skipulagða brotastarfsemi, en þar þarf starfsemin að lúta að því að afla einhvers ávinnings, sem hryðjuverkastarfsemi gerir kannski ekki, heldur er það þessi fíkniefnasala og svo framvegis.“
Sigurður fjallaði einnig um mikilvægi réttarríkisins og þess að viðbrögð samfélagsins við fregnum liðinnar viku verði til þess fallin að mæta þeim félagslega vanda sem getur til öfgahyggju:
„Svona fréttir hreyfa við fólki, þá er rétt að líta til þess að við búum í réttarríki og viljum gera það. Samfélaginu sé stjórnað af lögunum en ekki geðþótta eða ótta. Því fannst mér viðbrögð lögreglunnar og ríkislögreglustjóra til fyrirmyndar, talað var af fumleysi og öryggi og ég vona að það verði þannig áfram. […] Þegar svona mál koma upp þá eru þetta auðvitað málefni lögreglu og löggæslu, en fyrst og fremst held ég að þetta sé félagslegur vandi. Eflaust munu koma upp raddir um auknar heimildir lögreglu og þá þarf að skoða það mjög gætilega, en fyrst og fremst þarf að mæta vandanum þar sem hann er, sem er félagslegur. Úr hvaða jarðvegi koma þessar hugsanir?“
Þá ræddi Sigurður stuttlega um hlutverk verjenda, sér í lagi í þeim tilfellum þegar grunur er um háttsemi sem ógnar stjórnskipun ríkisins eða öryggi, og mikilvægi réttlátrar málsmeðferðar. Kom fram að hlutverk verjanda er að gæta réttinda hagsmuna skjólstæðings, en um leið að vera þjónn réttarins.
Að lokum má benda á að Sigurður Örn var einnig til viðtals í morgunútvarpi Rásar 2 fyrr á þessu ári þar sem til umræðu voru forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu. Sjá nánar hér.