Fréttir / News

Viðtal við Sigurð Örn um einangrunarvist á Íslandi

  |   Fréttir af stofunni

Þann 1. febrúar sl. ræddi Sigurður Örn Hilmarsson, eigandi á Rétti og formaður Lögmannafélags Íslands, við fréttaskýringarþáttinn Spegilinn um beitingu einangrunarvistar á Íslandi. Í viðtalinu er fjallað um nýja skýrslu mannréttindasamtakanna Amnesty International þar sem fram kemur að einangrunarvist í fangelsum landsins sé beitt úr hófi fram og ekki í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum. Í þættinum svarar Sigurður spurningum um niðurstöður skýrslunnar og fjallar m.a. um það sem betur mætti fara í framkvæmd við beitingu úrræðisins og hvernig löggjöf sé ábótavant.

Sigurður sagðist þakklátur Amnesty fyrir að beina sjónum almennings að þessu mikilvæga atriði sem snerti störf lögmannastéttarinnar. “Umfjöllunin í skýrslunni er að mörgu leyti sláandi” sagði Sigurður. Aðspurður hvort hann teldi dómstóla of gjarna á að úrskurða fólk í gæsluvarðhald og einangrun, svaraði hann því játandi. “Það er mín afstaða og ég held það megi lesa skýrlega út úr skýrslunni. Ég held það sé rétt að taka nokkur skref aftur á bak og vera minnug þess að einn mælikvarði á gæði samfélagsins er hvernig komið er fram við fólk sem stendur höllum fæti”, sagði Sigurður og vísaði þar meðal annars til fanga og þeirra sem eru frelsissviptir. Áréttaði hann að þeir sem sitja í gæsluvarðhaldi hafa stöðu sakbornings við rannsókn sakamáls, en hafa ekki enn verið dæmdir sekir af dómstól. “Þeir eru látnir sæta mjög harkalegum þvingunarúrræðum og þá þarf að gæta þess að sú framkvæmd sé í samræmi við þær kröfur sem við, sem vestrænt lýðræðisþjóðfélag, viljum gera og höfum raunar bundið í okkar stjórnarskrá og að sama skapi erum aðilar að fjölda mannréttindasamninga sem taka sérstaklega á þessu.”

Sigurður fjallaði um samanburð sem gerður er í skýrslunni á fjölda úrskurða um einangrun hérlendis við t.d. Norðurlöndin. Hann taldi svigrúm til að gera betur og fara ætti fram af meiri varúð í íslenska réttarkerfinu, þar sem einangrunarvist megi aðeins beita í mjög afmörkuðum og einstaka tilfellum.

Áhugasöm geta nálgast þáttinn hér: https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-02-01-einangrun-ofnotud-af-domstolum