Skýrsla um jafnrétti innflytjenda kynnt
Skýrsla Réttar um jafnrétti innflytjenda á íslenskum atvinnumarkaði, einkum hjá hinu opinbera var kynnt á hádegisfundi í Hannesarholti í síðustu viku. Mæting var góð og mættu m.a. fulltrúar ráðuneyta, sveitarfélaga, opinberra stofnana, matsaðila á menntun og forsetafrú, Eliza Reid.
Stundin fjallaði nýverið um skýrsluna og þá birti Fréttablaðið umfjöllun í dag með viðtali við skýrsluhöfundana Claudie Ashonie Wilson og Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur. Þar segir Claudie m.a.:
„Það endurspeglast í stefnumótun stjórnvalda að þetta er fyrst og fremst álitið velferðarmál. Það er áhugavert því hættan er á, þegar nálgunin er sú hvað varðar aðlögun innflytjenda á atvinnumarkaði, að þetta verði þá ekki forgangsmál sem getur leitt til þess að það er minni valdefling fyrir innflytjendur með virkri atvinnuþátttöku og í stað þess að líta á þau sem einstaklinga sem eru þjónustuveitendur þá eru þau þjónustuþegar.“
Og Auður segir m.a.:
„Þegar litið er til þess af hverju við stöndum okkur vel í einni tegund jafnréttis en illa í annarri má þó rifja það upp að 13,4 prósent þjóðarinnar eru innflytjendur nú og enn hærra hlutfall af erlendum uppruna, þá var það samt þannig að fyrir 25 árum, í kringum 1994, voru aðeins 1,7 prósent innflytjendur. Hlutfallið hefur því margfaldast og mjög stuttu eftir þetta tímamark þá byrjar innleiðing á löggjöf sem varðar jafnrétti kynjanna. Þá erum með stofnanir eins og Jafnréttisstofu, sem þrátt fyrir heitið, [hafði] aðeins einn málaflokk jafnréttis á sinni könnu.“