Fréttir / News

Skýrsla um jafnrétti innflytjenda á atvinnumarkaði

  |   Fréttir af stofunni

Sumarið 2018 var greint frá því á heimasíðu Réttar að stofan hefði fengið styrk úr þróunarsjóði innflytjendamála til að gera skýrslu um jafnrétti innflytjenda á atvinnumarkaði og möguleika innflytjenda til atvinnu innan stjórnsýslunnar. Skýrslan hefur nú verið gefin út og er aðgengileg hér: Jafnrétti innflytjenda á atvinnumarkaði. Kynningarfundur um skýrsluna verður fimmtudaginn 7. nóvember kl. 12-13 í Hannesarholti og mun fara fram á ensku til að sem flestir geti tekið þátt.

English: This report on the equality of immigrants in the Icelandic labour market includes an executive summary, and two chapters (conclusions and recommendations) in English. A presentation in English on the report will be on November 7th at 12-1 pm in Hannesarholt.

Eftirfarandi er útdráttur úr skýrslunni:

Fjöldi innflytjenda á Íslandi í dag stendur nú í um 14% af heildarmannfjölda og fer ört vaxandi. Það er því mikilvægt að skilvirk og samþætt stefna um aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi sé til staðar, þannig að innflytjendur hafi raunhæft tækifæri til að lifa með reisn og ná sínum hæstu möguleikum.

Eftirfarandi skýrsla snýr að greiningu og mati á því álitaefni hvort innflytjendur á Íslandi, sérstaklega þeir sem eru langskólagengnir, hafi jafnt aðgengi að atvinnumöguleikum hjá hinu opinbera, með vísan til núverandi jafnréttisumhverfis, bæði hvað lög og stefnumál varðar.

Helsta greiningaraðferð rannsóknarinnar var umfangsmikil könnun á viðeigandi lögum og reglum og einnig upplýsingaöflun frá viðkomandi stjórnvöldum og þeim sveitarfélögum þar sem flestir innflytjendur búa hérlendis. Þar að auki var gerð könnun meðal 184 innflytjenda á Íslandi varðandi menntun þeirra og vinnu.

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru að margskonar hindranir standi í vegi menntaðra innflytjenda að vinnu hjá hinu opinbera. Þar á meðal er ófullnægjandi íslenskukunnátta, sem vegur þungt, en samt sem áður má rekja margar hindranir til óhagstæðra laga og stefnu stjórnvalda, sem og framkvæmdar. Þessi niðurstaða rímar við MIPEX skýrsluna um Ísland frá árinu 2015 þar sem komist var að því að stefnumótun Íslands vegna aðlögunar innflytjenda skapi í raun fleiri hindranir en lausnir fyrir þátttöku innflytjenda í samfélaginu.

Þrátt fyrir að ýmis jákvæð lög og jákvæðar stefnur hafi tekið gildi nýlega er þörf á að endurmóta stefnu íslenska ríkisins vegna aðlögunar innflytjenda. Þetta er sérstaklega skýrt í tilfelli stefnu ríkisins um aðlögun á vinnumarkaði, sem gefur til kynna að aðgengi að vinnumarkaði sé lagt að jöfnu við aðlögun á vinnumarkaði. Til viðbótar miða vinnumarkaðsaðgerðir sjaldan að því að auka atvinnuþátttöku innflytjenda hjá hinu opinbera og þá má sjá að sveitarfélög hafa gripið til frekari aðgerða en ríkið og stofnanir þess.

Í skýrslunni kemur fram að margir þeirra innflytjenda sem tóku þátt í könnuninni hafa lokið háskólamenntun, 88,3%, sem er í samræmi við alþjóðlegar skýrslur um aðstæður á vinnumarkaði hérlendis. Niðurstöður benda jafnframt til þess að flókið sé fyrir innflytjendur að fá menntun sína metna, bæði vegna lagalegra og skipulagslegra hindrana, þar sem gegnsæi skortir og einnig þar sem fleiri en 10 lögaðilar sjá um mat menntunar og reynslu hérlendis.

Niðurstöður sýna einnig að að miklu leyti feli stefna íslenska ríkisins um aðlögun innflytjenda að atvinnumarkaði í sér að litið sé á aðlögunina sem velferðarmál frekar en jafnréttismál. Þetta er ólíkt nálgun sumra Norðurlandanna sem hafa komið ýmsum aðgerðum í framkvæmd í samræmi við mismununar- og jafnréttislöggjöf, með það að markmiði að tryggja jafnrétti innflytjenda á atvinnumarkaði.

Í skýrslunni eru ýmsar tillögur gerðar sem miða að því að bæta úr þessum annmörkum og hvetur til betri stefnumótunar til þess að þekking og hæfni innflytjenda nýtist betur. Meðal tillagna eru einföldun matsferlis á erlendri menntun og tímabundnar jákvæðar aðgerðir sem miða að samþættingu á vinnumarkaði fyrir innflytjendur almennt sem og konur af erlendum uppruna. Meðal þessara aðgerða gætu verið starfsnám, námskeið í stjórnsýslurétti og framkvæmd, brúarnámskeið sem miða að því að fá menntun og reynslu metna, sérsniðin íslenskunámskeið o.s.frv.