Fréttir / News

Aðstandendur þeirra er létust í snjóflóðinu í Súðavík 1995 hljóta áheyrn Alþingis

  |   Fréttir af stofunni

Aðstandendur þeirra sem fórust eftir snjóflóðið í Súðavík fyrir 28 árum síðan fengu áheyrn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis á dögunum. Sigurður Örn Hilmarsson, eigandi á Rétti og formaður Lögmannafélags Íslands hefur gætt hagsmuna aðstandendanna.

Ákall hópsins hefur verið að aðdragandi og eftirmálar snjóflóðsins verði loksins rannsökuð með fullnægjandi hætti , en umbjóðendur Réttar mættu töluverði mótstöðu á sínum tíma þegar þau kröfðust óháðrar og faglegrar rannsóknar þar til bærra aðila á árunum 1995-2004. Sigurður Örn hefur fundað með forsætisráðherra og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í þessum tilgangi og fengu nú aðstandendurnir að segja sína hlið fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.

Snjóflóðið hafði þær afdrifaríku afleiðingar að fjórtán manns létust, þar af átta börn. Ný gögn og rannsókn Réttar og Heimildarinnar á málinu leiddu í ljós fjölmörg atriði sem hefðu mátt betur fara og hefðu jafnvel, ef rétt hefði verið að staðið, geta komið í veg fyrir manntjón.

Málið hefur haft veruleg áhrif á líf þeirra sem misstu ástvini og fjölskyldu í flóðunum, bæði vegna áfallsins sem í því felst en einnig sökum þess að hafa mætt lokuðum dyrum af hálfu hins opinbera þegar þau hafa leitað svara um hvers vegna fór sem fór. Í síðustu viku fengu þeir sem treystu sér til áheyrn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og eru aðstandendurnir bjartsýnir um framhaldið. Þeir vonast eftir ákvörðun nefndarinnar um að skipa sérstaka rannsóknarnefnd sem mun fara ofan í þau atriði sem misfórust í aðdraganda og kjölfar snjóflóðsins og að slíkt hljóti brautargengi fyrir Alþingi í framhaldinu.

Nánar má lesa um fundinn á vef Heimildarinnar.