Fréttir / News

Hrefna Dögg Gunnarsdóttir (RÚV)

Bótaskylda viðurkennd af íslenska ríkinu

  |   Fréttir af stofunni
Íslenska ríkið hefur fallist á bótaskyldu vegna aðgerða lækna sem fólu í sér brot á persónuvernd gagnvart umbjóðanda Réttar lögmannsstofu. Með bréfi dags. 18. september sl. kynnti ríkislögmaður afstöðu velferðarráðuneytisins og ríkislögmanns um að viðurkenna beri bótaskyldu vegna ólögmætrar meðferðar á viðkvæmum persónuupplýsingum. Með málið hefur farið Hrefna Dögg Gunnarsdóttir lögmaður á Rétti.
Málið má rekja til málaferla tveggja lækna fyrir siðanefnd Læknafélags Íslands en fyrir siðanefndinni bar annar læknanna fyrir sig gögn úr sjúkraskrá sjúklings sem verið hafði til meðferðar hjá lækninum. Gögnin voru síðar birt á vef Læknablaðsins. Má telja að með viðurkenningu íslenska ríkisins á bótaskyldu felist að vissu leyti staðfesting á því sem meðal annars var haldið fram í erindi til ríkislögmanns, að ólögmætt væri að afla upplýsinga úr sjúkraskrám sjúklinga í öðrum tilgangi en þeim að veita sjúklingi meðferð.
Í kjölfar fréttaflutnings af málinu kom í ljós að hinar viðkvæmu persónuupplýsingar um umbjóðanda Réttar var enn að finna á vef Læknablaðsins. Samkvæmt yfirlýsingu Læknafélags Íslands, siðanefndar Læknafélags LÍ og Læknablaðsins hefur umrædd umfjöllun nú verið fjarlægð, rúmlega tveimur árum eftir að Persónuvernd úrskurðaði um að Siðanefnd LÍ skyldi gert að eyða öllum persónugreinanlegum upplýsingum úr vefútgáfu Læknablaðsins. Hefur Rétti verið falið að kanna réttarstöðu umbjóðandans í því tilliti.
Hér má sjá frétt Rúv um málið, frá 27. september 2014.