Fréttir / News

Fjögurra ára baráttu gegn brottvísun lauk með sigri

  |   Fréttir af stofunni

Fyrir viku síðan ógilti Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurð innanríkisráðuneytisins þess efnis að litháískum ríkisborgara, umbjóðanda Réttar, skyldi vísað úr landi og sett tíu ára endurkomubann. Maðurinn hefur búið á Íslandi í hartnær tíu ár ásamt fjölskyldu sinni og hafði beðið síðustu fjögur ár í mikilli óvissu um framtíð sína og fjölskyldunnar.

Eins og fram kemur í umfjöllun RÚV um málið úrskurðaði Útlendingastofnun þann 16. október 2013 að viðkomandi skyldi vísað úr landi og þann 21. september 2015 staðfesti innanríkisráðuneytið þann úrskurð. Í kjölfarið leitaði einstaklingurinn eftir liðsinni Sigurðar Arnar Hilmarssonar hrl., eins af eigendum Réttar.

Lögmenn Réttar byggðu á því að ágallar hefðu verið á málsmeðferð innanríkisráðuneytisins í málinu, þar sem málsmeðferð hefði tekið lengri tíma en 21 mánuð og ráðuneytið hefði ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni, t.d. með því að afla ekki upplýsinga um aðstæður stefnanda og fjölskyldu hans á meðan þessum langa biðtíma stóð. Á þetta féllst héraðsdómur. Einnig féllst héraðsdómur á það að efnislegir annmarkar hefðu verið á ákvörðun ráðuneytisins og átti það einkum við um tvö atriði.

Í fyrra lagi þótti ráðuneytið ekki hafa tekið nægilegt tillit til lagabreytingar á útlendingalögum sem átti sér stað á meðan meðferð málsins stóð og hafði það að markmiði að Ísland virti skuldbindingar sínar að EES-rétti betur. Breytingin, sem gerð var með lögum nr. 64/2014, fól m.a. í sér að skýrlega kom fram að fyrri refsilagabrot EES-borgara nægðu ekki ein og sér til að brottvísun yrði beitt. Þá fól breytingin einnig í sér meta þyrfti hvort líkur væri á því að EES-borgari sem vísa ætti úr landi myndi fremja refsivert brot að nýju. Dómurinn taldi að slíkt heildstætt mat hefði ekki átt sér stað í samræmi við ákvæðið.

Í seinna lagi endurskoðaði héraðsdómur mat ráðuneytisins um það hvort um brottvísunin væri ósanngjörn gagnvart stefnanda eða fjölskyldu hans í skilningi útlendingalaga. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að með tilliti til friðhelgi fjölskyldunnar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu í sambærilegum málum og þess hversu mikil áhrif brottvísunin myndi hafa á fjölskyldu stefnanda, fæli fyrirhuguð brottvísun í sér verulega íhlutun í friðhelgi fjölskyldu stefnanda. Þegar fjölskyldulíf stefnanda væri vegið gagnvart rétti ríkisins til að vernda allsherjarreglu og almannaöryggi mætti sjá að brottvísun og endurkomubann stefnanda myndi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun, og þá sérstaklega með tilliti til þess að brot stefnanda virtist hafa verið einstakt og að öðru leyti hefði hann sýnt af sér góða hegðun.

Réttur fagnar þessari niðurstöðu, þar sem mikilvægt er að íslenska ríkið virði friðhelgi fjölskyldunnar og gæti þess að framkvæmd í útlendingamálum sé sanngjörn og í samræmi við EES-rétt, skuldbindingar ríkisins samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrána.