Fréttir / News

Fræðigrein um réttindi verðandi foreldra á EES-svæðinu eftir lögmann Réttar í nýútgefnu Tímariti lögfræðinga

  |   Fréttir af stofunni

Í síðastliðinni viku birtist fræðigrein í nýútkomnu Tímariti lögfræðinga eftir Védísi Evu Guðmundsdóttur, lögmann og eiganda á Rétti. Greinin ber titillinn Takmarkanir íslenskra laga á frjálsri för verðandi foreldra á EES-svæðinu með tilliti til útreiknings fæðingarorlofsgreiðslna. 

Í greininni er fjallað um mál sem hefur verið rekið fyrir íslenskum dómstólum þar sem tekist var á um heimild Fæðingarorlofssjóðs til að ákvarða íslenskum ríkisborgara og verðandi foreldri lágmarksgreiðslur í fæðingarorlofi, þrátt fyrir að hún hafði starfað sem læknir í fullu starfi í Danmörku og síðar á Íslandi fyrir upphaf orlofs. Naut hið verðandi foreldri þannig ekki sömu málsmeðferðar og foreldrar sem hafa búið á Íslandi fyrir töku orlofs, þ.e. Fæðingarorlofssjóður beitti ekki sama útreikningi íslenskra laga sem miða við að fæðingarorlofsgreiðslur séu jafnan byggðar á útreikningi á meðaltali launa sem aflað var fyrir töku orlofsins. Ástæðan var sú að ákvæði íslenskra laga um útreikning á meðaltalslaunum er aðeins beitt þegar launþeginn hefur starfað á innlendum vinnumarkaði á tilteknum tíma fyrir fæðingu barns. Því var ljóst að störf hennar sem læknir í Danmörku gerðu það að verkum að hún naut lægri greiðslna í fæðingarorlofi en ef hún hefði aðeins starfað sem læknir á Íslandi.

Í málinu var tekist á um túlkun og þýðingu m.a. meginreglu 29. gr. EES-samningsins um frjálsa för og rétt til almannatryggingabóta auk ákvæðis svokallaðrar samræmingarreglugerðar (reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004) sem innleidd hefur verið í íslenskan rétt. Samkvæmt þessum EES-reglum hafa launþegar og verðandi foreldrar rétt til að njóta hagsbóta almannatrygginga við flutning milli EES-ríkja og eiga ekki að verða af rétti við flutning milli EES-ríkja sem þeir hefðu annars notið með því að vera um kyrrt innan aðeins eins ríkis.

Nýverið veitti EFTA-dómstóllinn ráðgefandi álit á túlkun þessara ákvæða í tengslum við rekstur málsins fyrir landsdómstólum. Dómstóllinn sló föstu í máli nr. E-5/21 að þessum rétti launþega væri ætlað að tryggja aðgang þeirra að almannatryggingakerfum innan EES sem og að sporna gegn því að fjárhæð almannatryggingabóta skerðist eingöngu vegna þess að þeir hafi nýtt rétt sinn til frjálsrar farar við flutninga innan EES. Taldi EFTA-dómstóllinn nauðsynlegt fyrir íslensk stjórnvöld að líta til þess að viðkomandi aðili hefði verið starfandi í Danmörku og áætla hvað umræddur læknir hefði haft í starfi sínu á Íslandi við ákvörðun fjárhæðar fæðingarorlofsgreiðslna.

Í greininni er m.a. farið yfir íslenska dómsmálið auk þess sem helstu málsatvik, reglur og sjónarmið sem reyndi á fyrir EFTA-dómstólnum eru reifuð. Fjallað er um niðurstöðu og túlkun EFTA-dómstólsins á samræmingarreglugerðinni og 29. gr. EES-samningsins auk þess sem spáð er í spilin varðandi framhald málarekstursins fyrir íslenskum dómstólum. Loks er því velt upp hvort lagabreyting sé nauðsynleg í kjölfar túlkunar EFTA-dómstólsins.

Nálgast má greinina hér.