Fréttir / News

Fulltrúar Réttar á Lagadeginum 2022

  |   Fréttir af stofunni

Föstudaginn 23. september sl. var Lagadagurinn haldinn hátíðlega á Hilton Nordica við góðar undirtektir meðlima fagstétta lögfræðinga, lögmanna og dómara. Gestir Lagadagsins gátu að venju sótt ýmis málþing þar sem fyrirlesarar og álitsgjafar fjölluðu um ólík málefni lögfræðinnar sem hafa verið í brennidepli undanfarin misseri.

Þetta árið voru fulltrúar Réttar framsögumenn á tveimur stórum málþingum á dagskrá Lagadagsins. Einn eigandi Réttar, Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður, hélt erindi á málþingi um dómskerfið, en hann gegnir jafnframt stöðu formanns LMFÍ. Fjallaði Sigurður um það hvernig dómskerfið breyttist með aðkomu Landsréttar fyrir fimm árum. Beindi hann sérstaklega sjónum að því hvernig hlutverk réttarins blasir við lögmönnum við störf þeirra, þeim kostum sem fylgt hafa tilkomu dómstigsins og hvaða áskoranir eru enn fyrir hendi við rekstur mála fyrir réttinum.

Þá tóku tveir aðrir fulltrúar stofunnar þátt á glæsilegri málstofu um umhverfisrétt og loftslagsbreytingar fyrir dómstólum. Málstofan fjallaði um mikilsverða þróun á þessi sviði síðustu ár, með hliðsjón af fjölgun dómsmála tengdum umhverfisrétti, mannréttindum og loftslagsbreytingum. Dr. Kári Hólmar Ragnarsson, lögmaður og einn af eigendum Réttar, fjallaði um réttarfarsleg atriði sem hafa þarf í huga við mat á málshöfðunum hérlendis þegar kemur að réttindum sem stafa frá umhverfisréttarlegum skuldbindingum. Einnig fjallaði Jóna Þórey Pétursdóttir, nýr fulltrúi hjá Rétti, um einstök lagaleg réttindi innan sviðs umhverfisréttar og hvernig mannréttindi hafa spilað þátt í dómsmálum erlendis sem varða mannréttindi.