Fréttir / News

Íslenska ríkið braut gegn réttinum til frjálsra kosninga

  |   Fréttir af stofunni

Í morgun féll dómur í máli Guðmundar Gunnarssonar og Magnúsar Davíðs Norðdahl fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sem Sigurður Örn Hilmarsson, einn eigenda Réttar, fór með fyrir þeirra hönd og vann að ásamt Kristrúnu Ragnarsdóttur, lögmanni og fulltrúa á Rétti. Dómstóllinn dæmdi þeim Guðmundi og Magnúsi í vil, og komst að því að ríkið braut gegn 3. grein 1. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu um réttinn til frjálsra kosninga og að brotið var gegn 13. gr. Mannréttindasáttmálans um réttinn til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns.

Málið vakti mikla athygli á sínum tíma og fjallaði um brot gegn kosningalögum. Um var að ræða misræmi við endurtalningu atkvæða í Norðvestur kjördæmi í Alþingiskosningunum 2021 og hafði endurtalningin áhrif á úthlutun jöfnunarsæta. Guðmundur Gunnarsson og Magnús Davíð Norðdhal, kvörtuðu vegna þeirrar framkvæmdar til kjörbréfanefndar Alþingis. Undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa, sem skipuð var af starfandi þingforseta, skoðaði málið og fór málið svo fyrir kjörbréfanefnd Alþingis, en nefndarmenn hennar eru kosnir af Alþingi.

Í dómi Mannréttindadómstólsins kemur fram að litlu munaði á fjölda atkvæða og áhrifum þeirra á úthlutun þingsæta. Þá tiltekur dómsóllinn að undirbúningsnefnd kjörbréfa komst að þónokkrum ágöllum við framkvæmd kosninganna og var það óumdeilt milli íslenska ríkisins og umbjóðenda Réttar, að gallar voru á framkvæmd kosninganna. Þá er það mat Mannréttindadómstóslins að frjálsum kosningum er stefnt í hættu þó aðeins sé um að ræða brot á málsmeðferðarreglu í kosningaferlinu sem gæti komið í veg fyrir frjálsa tjáningu skoðana fólks og ef einstaklingar hafa ekki raunhæf úrræði til að láta reyna á þau brot og leita réttar síns. Þannig leggur dómstóllinn áherslu á að réttaröryggisreglur skipti verulegu máli við að tryggja frjálsar kosningar.

Þá taldi dómstóllinn að þingmenn gætu ekki verið ”pólítískt hlutlausir” í ákvörðunatöku um kosningakvartanir. Dómstóllinn sagði að sérstaklega yrði að huga að því að tryggja óhlutdrægni og sagði það einkar mikilvægt til að tryggja traust almennings. Í þessu tilviki voru þó engar reglur í gildi um hugsanlega hagsmunaárekstra þeirra þingmanna sem þurftu að taka afstöðu til kvörtunar Guðmundar og Magnúsar. Reyndar höfðu ákveðnir aðilar sem kusu um málið orðið fyrir beinum áhrifum af niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar, bæði í nefndum og í þingsal þegar kjörbréfin voru afgreidd, og höfðu sumir þingmenn þannig ráðið örlögum sínum sjálfir. Þó dómstóllinn taldi hvorki tilefni til að efast um trúverðugleika rannsóknar þingsins og óhlutlægni tillagnanna sem komu fram, né að það væri ástæða til að velta vöngum um pólítíska hvata atkvæðagreiðslunnar, þá taldi dómstóllinn engu að síður að skortur á sértækum reglum sem tryggja hlutleysi leiði til þess að hafa megi raunverulegar áhyggjur af heilindum atkvæðagreiðslunnar.

Þá taldi dómstóllinn að svigrúm Alþingis til ákvarðanatöku, þar á meðal um praktískar afleiðingar hvers kyns kosningagagalla, sé nánast ótakmarkað. Skort hafi nægilega nákvæmar og ákveðnar reglur um ákvörðunartöku vegna kosningakvartana, sem brjóti í bága við 3. grein 1. viðauka við Mannréttindadómstólinn. Dómstóllinn taldi að málsmeðferð við athugun á kvörtunum kæranda hafi verið sanngjarnar og málefnalegar, þeir hafi fengið að taka þátt í málsmeðferðinni og mætt fyrir nefndina, tillögur hafi veirð skýrt rökstuddar og þær ræddar opinberlega. Þrátt fyrir það, var skortur á nauðsynlegum hlutleysis ráðstöfunum og stóð eftir nánast óheft svigrúm Alþingis, sem braut gegn kröfum 3. gr. 1. viðauka Mannréttindasáttmálans og 13. gr. um að raunhæft og virkt réttarúrræði verði að standa til boða.

Dómstóllinn dæmdi íslenska ríkið til að greiða kærendum 13.000 evrur hvorum um sig í miskabætur. Dóminn í heild sinni má nálgast hér.