Fréttir / News

Jóna Þórey Pétursdóttir í Dagmálum og frétt um dóm MDE um lofslagsmál í Morgunblaðinu

  |   Fréttir af stofunni

Í dag birtist viðtal við Jónu Þóreyju Pétursdóttur, lögmann á Rétti, í Dagmálum, þar sem umræðuefnið var nýlegur dómur Mannréttindadómstóls Evrópu um loftslagsmál. Ljóst er að dómurinn hefur vakið mikla athygli og er ekki óumdeildur, en í viðtalinu fór Jóna yfir efni hans og afleiðingar með ítarlegum hætti, þá sérstaklega í tengslum við rétt einstaklinga til þess að vera frjáls frá umhverfislegum skaða.

Fjallað var um dóminn í frétt hér á heimasíðu Réttar 9. apríl sl., en til upprifjunar var um að ræða mál gegn Sviss þar sem félagasamtök eldri kvenna með yfir tvö þúsund konum fóru í mál gegn svissneska ríkinu, en þær lögðu meðal annars fram læknisfræðileg gögn sem sýndu fram á hvernig hitabylgjur höfðu áhrif á heilsu þeirra, líf og lífsgæði og taldi Mannréttindadómstóllinn að svissneska ríkið hefði ekki gripið til fullnægjandi aðgerða til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar. Dómstóllinn féllst á að brotið hefði verið gegn friðhelgi einkalífs kvennanna, sem og rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar. Sjá meira um þetta í viðtalinu við Jónu.

Þá fór Jóna einnig yfir það hversu erfitt er að koma málum til Mannréttindadómstólsins til verndar þessum tilteknu réttindum og er dómurinn meðal annars merkilegur fyrir þær sakir að málið hafi komist að og hlotið efnislega niðurstöðu. Þá fór Jóna einnig yfir hversu erfitt er að koma slíkum málum fyrir íslenska dómstóla, enda vísa innlendir dómstólar slíkum málum gjarnan frá þar sem að skilyrðin eru svo ströng hvað varðar persónulega hagsmuni sem verða að vera til staðar.

Þá birtist einnig frétt upp úr viðtalinu í Morgunblaðinu í morgun, þar sem dregið er saman það helsta sem þar kom fram.

Jóna Þórey Pétursdóttir hefur til viðbótar við meistaragráðu frá Háskóla Íslands í lögfræði meistaragráðu frá Háskólanum í Edinborg í mannréttindalögfræði, en þar lagði hún meðal annars áherslu á réttinn til heilnæms umhverfis og hefur mikla þekkingu á málaflokkinum.

Viðtalið við Jónu er aðgengilegt hér á vef Dagmála og einnig í Morgunblaði dagsins.