Fréttir / News

Jóna Þórey tekur sæti í ráðgefandi stjórn SOHRI

  |   Fréttir af stofunni

Jóna Þórey Pétursdóttir, fulltrúi á Rétti og mannréttindalögfræðingur, hefur þegið sæti í ráðgefandi stjórn (Board of Advisors) samtakanna Swedish Observatory for Human Rights Information.

Ráðgefandi stjórn samtakanna samanstendur af alþjóðlegum sérfræðingum í mannréttindum, lögfræði og félagslegu réttlæti. Ráðið starfar samhliða stjórn samtakanna (Board of Directors) og veitir henni leiðsögn og ráðgjöf til þess að stuðla enn frekar að markmiðum samtakanna um að vinna að vernd mannréttinda á heimsvísu.

Swedish Observatory for Human Rights Information (SOHRI) voru stofnuð í þeim tilgangi að verja og stuðla að mannréttindum. Þau starfa með Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi ásamt öðrum mannréttindasamningum og sáttmálum, óháð að hverjum brot kann að beinast. SOHRI rannsaka og skrásetja mannréttindabrot og treysta á frumheimildir á vettvangi brota ásamt víðtæku tengslaneti borgaralegra samtaka.

Ásamt Jónu taka Philip D. Jaffé, meðlimur barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna, Dr. Jakub Julian Szepek, meðlimur undirnefndar Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir til að koma í veg fyrir pyndingar og Jennifer Foster, rannsakandi fyrir Amnesty International International Secretariat, sæti í ráðgefandi stjórn samtakanna.

Nálgast má tilkynningu samtakanna frá 9. maí með nánari upplýsingum um skipan ráðgefandi stjórnar samtakanna á heimasvæði SOHRI, þar á meðal tilkynningu um sæti Jónu Þóreyjar.

Mynd: Swedish Observatory For Human Rights Information