Fréttir / News

Hvernig má staðfesta að pyndingum sé ekki beitt?

  |   Fréttir af stofunni

Föstudaginn 6. mars 2015, stóðu Íslandsdeild Amnesty International og Mannréttindaskrifstofa Íslands fyrir málþingi um mikilvægi fullgildingar valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum.

Sigurður Örn Hilmarsson, lögmaður á Rétti, hélt erindi á málþinginu þar sem hann fjallaði um þau grundvallarréttindi sem valkvæðu bókuninni við Pyndingasamninginn er ætlað að tryggja, svo sem bann við vanvirðandi og ómannúðlegri meðferð. Fjallað var um ráðstefnuna í fjölmiðlum, en í viðtali við Spegilinn á RÚV sagði Sigurður m.a.:

„Eftirlit með þessum málefnum er ófullnægjandi. Því tel ég að það sé ekki hægt að halda því fram með vissu að pyndingar viðgangist ekki á Íslandi, eða það sem er mikilvægara að þær geti ekki átt sér stað.“

„Á Íslandi hvílir jákvæð skylda til að tryggja þau mannréttindi sem getið er um bæði í stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu. Ein leiðin til að koma í veg fyrir að pyndingar, og önnur vanvirðandi eða ómannúðleg meðferð eigi sér stað á Íslandi, er einmitt sú að taka upp og fullgilda þessa valkvæðu bókun sem kveður á um tvennt. Annars vegar að Ísland samþykkir að hér komi alþjóðleg nefnd í heimsókn sem gerir úttekt á þessum málum með reglulegum hætti og skrifar skýrslu um það. Hún hefur aðgang að öllum stofnunum, föngum og öðrum einstaklingum sem eru þarna í hugsanlegri hættu. Hins vegar að tekið sé upp sjálfstætt landseftirlit sem að færi með eftirlit með þessum málum hér innanlands.“

„Ég held að  íslensk stjórnvöld og yfirvöld vilji standa sig vel í þessum málum og má ráða það af stefnuyfirlýsingum stjórnvalda um mannréttindi, um utanríkisstefnu Íslendinga, og svo framvegis. En allt kostar þetta peninga. Það er ekki nóg að hafa hreint hjarta og góðan hug, heldur þarf meira til. Það þarf að auka lagaheimildir, fullgilda samninginn og þessu þarf að fylgja fjármagn.“

Aðspurður hvort að einstaklingar sættu vanvirðandi eða ómannúðlegri meðferð á Íslandi sagði Sigurður:

„Ég held að það sé barnalegt að trúa því að slíkt eigi sér ekki stað. Til mín hafa leitað einstaklingar sem hafa talið sig hafa orðið fyrir pyndingum og annarri vanvirðandi eða ómannúðlegri meðferð. Það eru dæmi um það í okkar dómaframkvæmd að ríkið hafi verið dæmt fyrir einmitt brot á þessum skilyrðum 3. gr. mannréttindasáttmálans, sem nær ekki einungis yfir pyndingar heldur önnur atriði líka.“

Eftirfarandi erindi voru einnig flutt á málþinginu:

  • „The police and torture in Europe – do we really need a National Preventive Mechanism?“ Dr. Anja Bienert, yfirmaður Mannréttinda- og löggæslusviðs Hollandsdeildar Amnesty International
  • „Refsivist eða betrun – hugleiðingar um aðbúnað í íslenskum fangelsum.“ Erla Kristín Árnadóttir, lögfræðingur og staðgengill forstjóra Fangelsismálastofnunar
  • „Innleiðing alþjóðasáttmála á sviði mannréttinda frá sjónarhóli stjórnsýslunnar“ Haukur Guðmundsson, hdl. Lagastoð

Fundarstjóri var Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Tenglar um efnið:

Frétt Spegilsins, 6. mars 2015

Frétt í kvöldfréttum RÚV, 6. mars 2015

Umfjöllun Íslandsdeildar Amnesty International

Umfjöllun Mannréttindaskrifstofu Íslands