Fréttir / News

Náttúruverndarsamtök Íslands kæra aðgerðir stjórnvalda, sem heimila hvalveiðar, til ESA

  |   Fréttir af stofunni

Í gær tóku Stöð 2 og Vísir viðtal við Védísi Evu Guðmundsdóttur, lögmann og eiganda á Rétti, þar sem fjallað var um nýlega kæru Náttúruverndarsamtaka Íslands til Eftirlitsstofnunar EFTA. Kæran var lögð fram í kjölfar nýlegrar skýrslu MAST um að hvalveiðarnar stangist á við lög um dýravelferð, upplýsinga um verkun hvalshræjanna utandyra undir berum himni og vegna nýlegra rannsókna um kolefnisbindingu stórhvela.

Í framhaldi af mati samtakanna á hvernig hvalveiðarnar og verkun hvalshræjanna stangast á við útgefið starfsleyfi og íslensk lög tóku Náttúruverndarsamtökin næst til skoðunar hvernig starfsemi Hvals hf., sem byggir á starfsleyfi útgefnu af matvælaráðherra, samræmist EES-skuldindingum sem hvíla á íslenska ríkinu. Í aðalatriðum snýr kæra samtakanna að mögulegum brotum íslenskra stjórnvalda gegn skuldbindingum sem leiða af EES-samningnum og reglum um dýravelferð, matvælaöryggi og kolefnisskuldbindingar með útgefnu starfsleyfi og aðgerðarleysi stjórnvalda í kjölfar framkominna upplýsinga.

Í kærunni er rakið að verulegur vafi leiki á því að gætt sé að EES-reglum með því að veita starfsleyfi til Hvals hf. vegna aðferðanna sem beitt er við hvalveiðarnar sem valda dýrunum streitu og þjáningu, vegna verkunar hvalshræjanna utandyra þar sem fuglar og önnur dýr komast að hræjunum sem eru verkuð sem matvælaafurð ætluð til neyslu manna og vegna kolefnisbindingar sem tapast við dráp á stóhvelum.

Óskað var eftir flýtimeðferð hjá stofnuninni vegna málsins.

Mynd með frétt fengin frá Vísí/Steingrími Dúa. Sjá að öðru leyti umfjöllun Vísis hér.