Fréttir / News

Ráðgjöf veitt vegna fjármögnunar fjártæknisprota

  |   Fréttir af stofunni

Nýlega fjallaði Viðskiptablaðið um að íslenski fjártæknisprotinn Monerium ehf. hefði lokið fjögurra milljóna dala fjármögnun sem jafngildir um 520 milljónum króna.

Réttur sinnti lögfræðilegri ráðgjöf fyrir Monerium ehf. í fjármögnunarferlinu, svo sem vegna hlutafjárhækkunar félagsins sem var framkvæmd í tengslum við fjármögnunina og sá um gerð ýmissa skjala vegna fjármögnunarinnar. Þeir lögmenn stofunnar sem komu helst að verkefninu voru Sigurður Örn Hilmarsson, Stefán Örn Stefánsson og Alexander Hafþórsson, sem sinna reglulega ráðgjöf á þessu sviði.

Dótturfélag félagsins, Monerium EMI ehf. hefur starfsleyfi hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands til þess að gefa út og meðhöndla rafeyri og er þannig fyrsta fyrirtækið sem hefur leyfi frá evrópskum eftirlitsstofnunum til þess að gefa út rafeyri á bálkakeðjum (e. blockchains). Réttur veitti Monerium einnig ráðgjöf við öflun starfsleyfisins árið 2019.

Í fréttatilkynningu Monerium um fjármögnunina segir að hún komi til með að hraða áformum fyrirtækisins um útgáfu stærstu gjaldmiðla á bálkakeðjum í Evrópu, en þar verði fyrstur í röðinni næststærsti viðskiptagjaldmiðill heims, evran. Fjármögnunin var leidd af Taavet+Sten en meðal annarra fjárfesta voru m.a. Crowberry Capital, Request Network, Davíð Helgason, Hjalmar Winbladh og Balaji Srinivasan.