Fréttir / News

Ragnar í viðtali hjá Stundinni

  |   Fréttir af stofunni

Fyrr í þessum mánuði birtist ítarlegt viðtal í Stundinni  við Ragnar Aðalsteinsson, einn af eigendum Réttar, um ýmislegt tengt störfum hans.

Meðal annars fjallaði Ragnar um aðkomu sína að sjóréttarmálum, verjendastörfum, dómsmálum um efnahagsleg og félagsleg mannréttindi, en um síðastnefndu málin sagði Ragnar:

„Eftirminnilegustu málin á ferlinum, eða kannski þau mál sem ég hef verið ánægðastur með að vinna, þau tengjast einmitt efnahagslegum og félagslegum mannréttindum. Það eru mál eins og öryrkjadómurinn og mál sem ég höfðaði á undan því gegn Háskóla Íslands fyrir blindan stúdent sem ekki naut réttinda á við aðra. Mér fannst það vera tímamótadómur, þar var vitnað í félagsleg réttindi stúdentsins og Háskólanum gert að greiða konunni skaðabætur. Á svipuðum tíma féll dómur í máli, sem ég kom reyndar ekki nálægt, sem Ástráður Haraldsson flutti fyrir heyrnarlausa um að túlka ætti umræður í sjónvarpi fyrir kosningar, til að gefa heyrnarlausum kost á að fylgjast með stjórnmálum og kosningabaráttu. Þessir þrír dómar gengu allir á svipuðum tíma, þarna um aldamótin, og maður varð afar bjartsýnn á að það væri að rofa til á þessu sviði í íslenskri lögfræði.“

Ragnar telur þó að breyting hafi orðið á þessum málaflokki innan dómstólanna frá aldamótum og sagði: „Hæstiréttur hefur ekki viljað halda áfram að túlka þau ákvæði á þann hátt sem gert var í Örykjabandalagsmálinu heldur hvarflað frá því“ og „Þetta hefur með viðhorf dómaranna í efsta dómstólnum að segja.“

Þá var fjallað ítarlega um aðkomu Ragnars að Guðmundar- og Geirfinnsmálinu en um það mál sagði Ragnar: „Ég vil fá tiltölulega ítarlegan dóm um hvernig farið var með þessa menn á sínum tíma og hvernig sönnunargögn voru metin. Í því ætti að felast skilaboð til lögreglu og dómstóla um það að gæta sín til framtíðar.“

Málflutningur vegna endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálsins fer fram 13. september næstkomandi.