Fréttir / News

Réttur á Lagadaginn 2023

  |   Fréttir af stofunni

Lagadagurinn var haldinn hátíðlega á Hilton Nordica þann 13. október sl. og fór vel fram. Að venju var boðið uppá málþing um ýmis málefni þar sem fyrirlesarar og álitsgjafar tóku fyrir fjölbreytt umfjöllunarefni á sviði lögfræðinnar. Lögfræðingar, lögmenn og dómarar sóttu Lagadaginn við góðar undirtektir. 

Í ár átti Réttur tvo þátttakendur í málþingum Lagadagsins. Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður, einn eigandi Réttar og formaður LMFÍ hélt erindi á málþingi um réttarfar og fullnustu refsinga. Málþingið snerist um fullnustu refsinga, þar á meðal lágt innheimtuhlutfall dómsekta, fjölda dómþola sem aldrei hefja afplánun vegna fyrningar refsidóma og vægi samfélagsþjónustu.  

Þá var Jóna Þórey Pétursdóttir lögmaður og fulltrúi hjá Rétti í pallborði á málstofu um lagalegar áskoranir orkuskipta á Íslandi. Málstofan fjallaði um hinar ýmsu áskoranir, kerfislegar og lagalegar, sem er mikilvægt að takast á við ef skipta á út jarðefnaeldsneyti fyrir orku úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Jóna fjallaði um togstreitu milli náttúruverndar og orkuskipta sem krefjist þess að ganga á náttúru og umhverfi með virkjanakostum. Hún sagði löggjöf vanta sem tryggir að virkjað sé í þágu almannahagsmuna, að almannahagsmunir þurfi að vera betur skilgreindir og lög þurfi til að tryggja að að ný og laus orka fari í orkuskipti.