Fréttir / News

Réttur fagnar niðurstöðu ráðherra um stöðvun hvalveiða

  |   Fréttir af stofunni

Í síðustu viku tók Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, ákvörðun um að stöðva hvalveiðar fram til 31. ágúst nk. Ákvörðun ráðherra var tilkynnt á vef Stjórnarráðsins, en þar kemur fram að hún byggði á sérfræðiniðurstöðum MAST frá því í maí sl., um að aflífun dýranna hafi tekið of langan tíma út frá meginmarkmiðum laga um velferð dýra, og afdráttarlauss álits fagráðs um velferð dýra um að sú veiðiaðferð sem beitt er við veiðar á stórhvelum samræmist ekki lögunum. Samkvæmt síðarnefnda álitinu minnka hvalveiðar getu sjávar til kolefnisbindingar, enda hafa hvalir mótandi áhrif á náttúrulegt umhverfi sitt, styrkja vistferla og stuðla að heilbrigði og frjósemi vistkerfa í hafi.

Í ljósi þeirrar niðurstöðu taldi ráðherra nauðsynlegt að fresta upphafi hvalveiðivertíðarinnar þannig að ráðrúm gæfist til þess að kanna hvort unnt væri að tryggja að veiðarnar gætu yfirhöfuð farið fram í samræmi við ákvæði laga um velferð dýra.

Aðdraganda þessarar ákvörðunar má ekki síst rekja til ötullar baráttu þeirra sem láta sig dýravelferð varða en lögmenn Réttar veittu Náttúruverndarsamtökum Íslands lögfræðilega ráðgjöf í baráttunni, undir traustri forystu Katrínar Oddsdóttur, lögmanns og ráðgjafa á Rétti. Réttur fagnar því að sú vinna hafi borið þennan mikilvæga og merka árangur og þakkar ráðherra fyrir að hafa brugðist við ákallinu með vísan til vísindalegra raka sem undirbyggja málstað Náttúruverndarsamtakanna og fleiri hagsmunahópa.

Fréttir fjölmiðla um málið má nálgast m.a. hér og hér.

Mynd af vef Stjórnarráðsins, eftir Eddu Elísabet Magnúsdóttur