Fréttir / News

Réttur til heilnæms umhverfis í Norræna húsinu

  |   Fréttir af stofunni

Á viðburðinum „Lýðheilsa og rétturinn til heilnæms umhverfis“ á Fundi Fólksins, lýðræðishátíð í Norræna húsinu, hélt Jóna Þórey Pétursdóttir, lögmaður hjá Rétti og mannréttindalögfræðingur, erindi um réttinn til heilnæms umhverfis. Í kjölfar erindisins tók Jóna þátt í pallborðsumræðum ásamt Elísabetu Herdísar- og Brynjarsdóttur hjúkrunarfræðingi og Bjarna Jónssyni þingmanni VG og formanni Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins.

Í erindinu kom fram að rétturinn til heilnæms umhverfis hefur verið viðurkenndur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í ályktunum Allsherjarþingsins og mannréttindaráðsins. Þar hefur rétturinn verið viðurkenndur sem sjálfstæð mannréttindi, áhersla lög á að rétturinn er tengdur öðrum réttindum og annarri alþjóðlegri löggjöf, sér í lagi alþjóðlegum umhverfissáttmálum á sviði umhverfisréttar. Evrópuráðið hefur vísað til ályktana Sameinuðu þjóðanna til grundvallar sinni vinnu, þar á meðal í the Reykjavik Declaration sem kom út í kjölfar the Reykjavik Summit sem haldin var hér á landi í maí.

Jóna fór yfir inntak réttarins til heilnæms umhverfis, þar á meðal að hann fæli bæði í sér form- og efnisskilyrði. Formið sé m.a. að tryggja þátttöku almennings í ákvarðanatökum, aðgengi almennings að upplýsingum og svo réttarúrræðum ef þau telja á þessum rétti brotið. Efnið sé svo að tryggja að umhverfið sé í því ásigkomulagi að fólk fái notið réttarins til heilnæms umhverfis. Umhverfið þarf að vera hreint, heilbrigt og sjálfbært og er það gert með því að tryggja umhverfisstaðla um umhverfisþætti, svo sem loftgæði, loftslag, ferskvatnsgæði, sjávarmengun, úrgang, eiturefni, vernduð svæði, friðun og líffræðilegan fjölbreytileika. Umhverfisstaðlarnir þurfa að tryggja tiltekið viðmið verndar sem leiða af aðferðum sem samræmast mannréttindum, taka mið af bestu mögulegu tækni og alþjóðlega viðurkenndum umhverfis-, heilsu- og öryggisviðmiðum eftir því sem mögulegt er.

Þá fjallaði Jóna um að þó íslensk stjórnskipan hafi ekki viðurkennt réttinn til heilnæms umhverfis sérstaklega, megi segja að rétturinn til umhverfis njóti óbeinnar verndar í íslensku réttarkerfi vegna skuldbindinga Íslands tengt Mannréttindasáttmála Evrópu. Hún greindi stuttlega frá dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins tengt umhverfinu og mannréttindum og þeim málum sem nú eru fyrir dómstólnum vegna loftslagsbreytinga. Þá kom fram í erindinu að Ísland hefur lögfest Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en í honum er kveðið á um að ríki skulu tryggja rétt barns til besta heilsufars sem hægt er, m.a. með því að taka tillit til hættu á umhverfismengun og áhrifa af völdum hennar.