Fréttir / News

Sigrar fyrir Erlu og Guðjón

  |   Fréttir af stofunni

Í dag komst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að ákvörðun endurupptökunefndar um að hafna beiðni Erlu Bolladóttur um endurupptöku á þætti hennar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu svokallaða skyldi ógilt. Erla var eini sakborningurinn af sex í málinu sem fékk ekki endurupptöku árið 2017, en hinir fimm einstaklingarnir voru svo sýknaðir í hinu endurupptekna máli í september 2018 og hafa rekið bótamál gegn íslenska ríkinu síðan þá.

Í ár verða 48 ár liðin frá því að lögregla hóf rannsókn á málunum og 42 ár frá því að hinn upphaflegi dómur Hæstaréttar féll, þar sem Erla var sakfelld fyrir rangar sakargiftir. Samkvæmt eðlilegu ferli þarf Erla nú að leita til Endurupptökudóms og að því loknu til Hæstaréttar, til að reyna að fá sýknu í máli sínu en að mati lögmanns hennar og eins af eigendum Réttar, Ragnars Aðalsteinssonar, kemur til álita að ráðamenn reyni að ljúka málinu. Um þetta segir Ragnar nánar:

„Ég verð eiginlega að ætla ríkisstjórninni og ráðgjöfum hennar að hafa réttlæti og skynsemi í fyrirrúmi en ekki bara endalausa baráttu upp á líf og dauða við borgarana í landinu og með hliðsjón af því að þá tel ég verulegar líkur á því að forsætisráðherra muni beita sér og að þessum málum öllum verði lokið á næstu vikum.“

Þessi ánægjulega niðurstaða kemur í kjölfarið á því að einn hinna sýknuðu fimmmenninga, Guðjón Skarphéðinsson, vann eigin sigur fyrir Landsrétti þann 17. desember sl. Ragnar er einnig lögmaður Guðjóns, eins og áður hefur verið fjallað um á heimasíðu Réttar.

Niðurstaða Landsréttar var sú að íslenska ríkið skyldi greiða Guðjóni 260 milljónir auk vaxta fyrir fangelsisvist hans og atvinnutjón vegna málsins, en ekki 145 milljónir eins og íslenska ríkið hafði talið rétt. Héraðsdómur hafði hins vegar viljað sýkna í málinu. Íslenska ríkið hefur fallist á að una niðurstöðu Landsréttar og leitast ekki eftir áfrýjunarleyfi frá Hæstarétti. Þýðir það að leit Guðjóns að sanngjarnri niðurstöðu hefur fengið sinn endapunkt.

Þetta verða ekki síðustu afskipti Ragnars af uppgjöri vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins en hann mun flytja skaðabótamál tveggja barna Sævars Ciesielski, annars hinna sýknuðu fimmmenninga, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur síðar í mánuðinum.