Fréttir / News

Guðmundar- og Geirfinnsmálið flutt að nýju í Hæstarétti

  |   Fréttir af stofunni

Í morgun hófst aðalmeðferð í Hæstaréttarmáli nr. 521/2017 (ákæruvaldið gegn Kristjáni Viðari Júlíussyni, Guðjóni Skarphéðinssyni, Sævari Marínó Ciesielski, Alberti Klahn Skaptasyni og Tryggva Rúnari Leifssyni).

Líkt og áður hefur verið fjallað um á heimasíðu Réttar er Ragnar Aðalsteinsson verjandi Guðjóns Skarphéðinssonar í málinu, sjá „Nýjar vísbendingar í Geirfinnsmáli“, „Ragnar Aðalsteinsson fjallar um sýknukröfu í Guðmundar- og Geirfinnsmáli“, „Meira um Guðmundar- og Geirfinnsmál“ og „Ragnar í viðtali hjá Stundinni“. Greint er frá því á RÚV.is og í Fréttablaði dagsins að Ragnar fer ekki eingöngu fram á sýknu skjólstæðings síns heldur að hann verði lýstur saklaus.

Leiðin að flutningi þessa dómsmáls hefur verið löng, en rannsókn lögreglu á málunum hófst árið 1974 og var hinn upphaflegi sakfellingardómur Hæstaréttar yfir Guðjóni og félögum kveðinn upp þann 22. febrúar 1980.

Í nóvember 1994 fór Sævar Marínó þess á leit að málið yrði endurupptekið og var Ragnar skipaður talsmaður hans í því máli. Sumarið 1997 hafnaði Hæstiréttur beiðni Sævars.

Vorið 2013 skilaði starfshópur innanríkisráðherra um Guðmundar- og Geirfinnsmál skýrslu sinni þar sem lagt var til að óskað yrði eftir endurupptöku málsins. Ári síðar fór Ragnar fram á endurupptöku fyrir hönd umbjóðanda síns og féllst endurupptökunefnd á beiðni hans og allra annarra sakborninga en Erlu Bolladóttur snemma árs 2017.

Fyrirhugað er að flutningur málsins taki tvo daga. Í morgun flutti settur saksóknari Davíð Þór Björgvinsson ræðu sína, sem er afar óvenjuleg þar sem ríkisvaldið fer fram á sýknu fimmmenninganna. Í máli sínu lagði Davíð áherslu á að mikilvægt sérkenni málanna sé að svo til einu sönnunargögnin sem hin upphaflega sakfelling hafi byggt á hafi verið framburður sakfelldu hvert um annað. Sömuleiðis fullyrti Davíð að á þeim tíma sem málin voru til rannsóknar hafi almennt verið lögð mikil áhersla á að ná fram játningum og að gæsluvarðandi hafi stundum beitt í þeim tilgangi.

Hægt er að fylgjast með gangi dómsmálsins í beinni textalýsingu Vísis hér.