Sigrún Ingibjörg í Samfélaginu að ræða um fréttabann í dómssal
Í gær var Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, lögmaður og eigandi á Rétti, í viðtali í Samfélaginu að ræða um frelsi fjölmiðla til fréttaflutnings við meðferð sakamála. Tilefni viðtalsins var fréttabann við aðalmeðferð stóra kókaínmálsins í byrjun þessa árs, sem Sigrún fjallaði um í grein sinni í Úlfljóti fyrir skemmstu, en finna má frekari upplýsingar um hana hér.
Til umfjöllunar í viðtalinu var nýleg breyting á sakamálalögunum þar sem bann við samtímaendursögn úr dómssal var gert að meginreglu, en í framangreindri aðalmeðferð, sem stóð yfir í um 7 vikur, var að reyna á regluna í fyrsta skipti. Bannið stóð yfir allan tímann en þegar lítið var eftir af skýrslutökum ákvað einn fjölmiðill að hefja frásagnir af skýrslutökunum, enda töldu þau að efnið ætti erindi við almenning og að tjáningarfrelsið ætti að vega þyngra en bannið við samtímaendursögn á þeim tímapunkti. Fjölmiðlinum var ekki gerð refsing í málinu en þetta hefði þó getað haft miklar afleiðingar fyrir fjölmiðilinn og einstaka fjölmiðlamenn.
Í áðurnefndri grein sinni í Úlfljóti fjallaði Sigrún um þennan vanda sem fjölmiðlafólk stendur frammi fyrir, en í grunninn snýst vandinn um það að engin ákvörðun er tekin um að banna samtímaendursögn úr dómssal sem þau geta látið reyna á, heldur er búið að gera slíkt bann að meginreglu með lögum. Ef fjölmiðlafólk, sem situr í dómssal og hlustar á skýrslutökur, telur það sem fram kemur í skýrslutöku eiga erindi við almenning þá geta þau ekki annað gert en að brjóta gegn lögunum, birta umfjöllunina og taka áhættuna á því að vera mögulega refsað fyrir – eða þá sitja á upplýsingunum þar til aðalmeðferð lýkur.
Í viðtalinu fjallar Sigrún um meginregluna um opin þinghöld og ástæður fyrir henni, en einnig um hagsmuni sakamálsins af því að það sé upplýst, sem eru ekki síður mikilvægir hagsmunir. Það er mikilvægt að vitni komi fyrir dóm og viti ekki hvað önnur vitni hafa sagt. Það að vitni lesi um vitnisburð annarra í fjölmiðlum getur að sjálfsögðu haft áhrif á framburð þess, sem er sakamálinu ekki til framdráttar og því dregur Sigrún ekki úr því að mikilvægt sé að hægt sé að koma í veg fyrir slíka samtímaendursögn. Það eru þó mismunandi hagsmunir sem vegast á og það þarf að gæta að réttindum fjölmiðlamanna, tjáningarfrelsinu og aðhaldi almennings með dómstólunum, einnig.
Það má sjá fyrir sér ýmis dæmi þar sem að samtímafrásögn úr skýrslutöku getur átt erindi við almenning, svo sem ef að ráðherra gefur skýrslu fyrir dómi í aðdraganda kosninga og segir frá einhverju sem myndi hafa veruleg áhrif á það hvernig fólk kýs. Á grundvelli reglunnar um bann við samtímaendursögn væri fjölmiðlum ekki heimilt að greina frá því í fjölmiðlum fyrr en eftir að aðalmeðferð er lokið, jafnvel þótt þeir hefðu verið á staðnum og hefðu upplýsingar í höndunum sem ættu erindi við almenning þá þegar.
Í viðtalinu fjallar Sigrún einnig um muninn á því þegar dómari tekur ákvörðun um að loka þinghaldi og þær heimildir sem dómarar hafa til þess að takmarka samtímaendursögn úr dómssal, samanborið við nýju regluna um bann við samtímafrásögn. Hugsanlega er tilefni til endurskoðunar þessara ákvæða og að láta það í hendur dómarans að taka ákvörðun um hvort slíkt bann skuli leggja á tímabundið, t.d. á meðan að lykilvitni gefa skýrslur. Sigrún segir í viðtalinu að í öllu falli sé ákveðin réttaróvissa til staðar í þessum málum og að það sé ekki allskostar skýrt hvað ákvæðin fela í sér og hvernig þau spila saman.
Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér.