Fréttir / News

“Hvað er opið þinghald á 21. öldinni?” – Sigrún Ingibjörg á rökstól í nýjasta Úlfljóti

  |   Fréttir af stofunni

Í 1. tölublaði 76. árgangs Úlfljóts, tímarits laganema, er Sigrún Ingibjörg Gísladóttir lögmaður og eigandi á Rétti, á rökstól um frelsi fjölmiðla til fréttaflutnings við meðferð sakamála, ásamt Kristínu Benediktsdóttur, dósent við lagadeild Háskóla Íslands og Ingibjörgu Þorsteinsdóttur, dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur.

Tilefni rökstólsins má rekja til nýlegrar umræðu sem spratt upp í kjölfar aðalmeðferðar fyrir héraðsdómi í umfangsmiklu sakamáli, hvar dómari málsins beindi því til fjölmiðla að óheimilt væri að greina frá framburði aðila fyrir dóminum þangað til að öllum skýrslutökum í málinu væri lokið.

Umfjöllun Sigrúnar Ingibjargar um málið bar heitið “Hvað er opið þinghald á 21. öldinni?” og fjallar um þá réttaróvissu sem er til staðar í íslensku lagaumhverfi um bann við því að skýra frá því sem kemur fram við skýrslutöku á meðan henni stendur á grundvelli 1. mgr. 11. gr. sakamálalaga. Sigrún fjallar sérstaklega um þá óvissu sem er til staðar um hversu víðtæk takmörkunin getur verið og hversu lengi hún getur staðið yfir. Þá bendir hún á að ákvæðið geri ekki ráð fyrir að mat fari fram um nauðsyn þess að banna samtímafrásögn af skýrslum og að heppilegra væri að fjölmiðlar hefðu lögmætan farveg til að bera ágreining um nauðsyn þessa.