Fréttir / News

Sigrún Ingibjörg Gísladóttir ásamt fundarstjóra og öðrum frummælendum málþingsins.

Sigrún Ingibjörg í Samfélaginu og á málþingi HR

  |   Fréttir af stofunni

Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, lögmaður og einn af eigendum Réttar flutti erindi í gær á málþingi Háskólans í Reykjavík undir yfirskriftinni „#Metoo og réttarkerfið – Getur verið að réttarkerfið virki ekki sem skyldi fyrir þolendur kynferðisofbeldis?“. Erindi Sigrúnar hét „Hvers vegna kærðu 9 konur íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu?“ en fjölmiðlar hafa sýnt þessum kærum Réttar mikinn áhuga líkt og fjallað hefur verið um áður á heimasíðu Réttar. Sigrún var í góðum hópi frummælendanna dr. Maríu Rúnar Bjarnardóttur og dr. Margrétar Einarsdóttur, sem fjölluðu um tjáningarfrelsi og lagasetningu á sviði kynferðisofbeldis.

Ein af niðurstöðum Sigrúnar í fyrirlestrinum var að lagaumhverfið endurspegli ekki nógu vel niðurfellingarhlutfall í málaflokknum og sagði hún um það: „Það virðist í öllu falli vera svolítil gjá milli þess sem löggjafinn og við sem samfélag erum búin að ákveða að er refsivert. Við erum búin að ákveða það […] að kynferðisbrot og heimilisofbeldi eru refsiverð en síðan er einhver gjá milli þess sem er þarna í orði og þess sem er á borði, hvernig raunverulega fer með þessi mál.“

Horfa má á málþingið hér, en erindi Sigrúnar byrjar á tímamarkinu 03:18. Þá hefur Morgunblaðið fjallað um málþingið og lesa má þá umfjöllun hér. Fyrr í vikunni fékk Þórhildur Ólafsdóttir Sigrúnu í viðtal í Samfélagið á Rás 1 til að fjalla um kærurnar, sem og lagaumhverfið fyrir þolendur og yfirstandandi tjáningarbylgju um kynferðisbrotamál.

Sigrún fjallaði meðal annars um neikvæða upplifun margra brotaþola af rannsókn lögreglu í kynferðisbrotamálum og val sumra um að kæra ekki mál sín og sagði: „…ríkið og lögreglan hafa gert ýmislegt til þess að bæta þessa upplifun brotaþola en engu að síður stendur það upp úr og auðvitað helst það í hendur við að málin eru trekk í trekk í trekk felld niður þannig að það er einhver vandi þarna og hann þarf að uppræta og við þurfum kannski bara að endurhugsa algjörlega hvernig við erum að rannsaka þessi mál og hvernig við náum fram réttlæti vegna þess, að eins og þú segir, að þá eru margir þolendur í þeirri stöðu núna að þeir treysta ekki réttarkerfinu og stíga hreinlega fram annað hvort sko samhliða því að kæra nú eða algjörlega í staðinn.“

Hlusta má á viðtalið hér og byrjar það á tímamarkinu 19:00.

Uppfært: Helgina eftir að þessi frétt var birt fjallaði Sigrún um sama efni í Speglinum á Rás 2 og Sprengisandi á Bylgjunni, sjá hér og hér.