Fréttir / News

Myndir: Úr kvöldfréttum RÚV/Kristján Ingvarsson

Lögmenn Réttar fyrir MDE

  |   Fréttir af stofunni

Í vikunni var greint frá því að Sigurði Erni Hilmarssyni, lögmanni og einum af eigendum Réttar, hafi verið falið að kæra staðfestingu Alþingis á kjörbréfum alþingismanna til Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg. Sigurður mun kæra málið fyrir tvo frambjóðendur í Norðvesturkjördæmi, sem báðir höfðu kært framkvæmd kosninganna hérlendis. Niðurstaða Alþingis byggði á breyttri seinni talningu í Norðvesturkjördæmi, þrátt fyrir að rannsókn undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa hafi leitt í ljós al­var­lega ann­marka á vörslu og meðferð kjör­gagna þar. Talsvert var fjallað um þessa rannsókn í október og nóvember og var Sigurður einnig í fréttum fyrir hönd kærenda í tengslum við hana.

Um hið væntanlega mál hefur Sigurður nú sagt við Morgunblaðið að það byggi á tveimur þáttum. Annars vegar hvort Alþingi hafi kom­ist að rangri niður­stöðu um lög­mæti kosn­inganna í Norðvest­ur­kjör­dæmi í ljósi vörslu og meðferðar kjör­gagna og hins vegar málsmeðferð Alþing­is og getu þess til að leysa úr þess­um mál­um. Um þetta sagði Sigurður:

„Þarna er Alþingi að skera úr um lög­mæti eig­in kosn­inga á grund­velli gagna sem eng­inn fær séð nema það sjálft. Sú til­hög­un er mjög óheppi­leg og til þess fall­in að draga úr trausti á af­greiðslu máls­ins og niður­stöðu þings­ins.“ og „Mann­rétt­inda­dóm­stóll get­ur kom­ist að þeirri niður­stöðu að það hafi átt sér stað brot gegn Mann­rétt­inda­sátt­mál­an­um og sú niðurstaða er ekki ráðgef­andi. Hún sem slík ógild­ir þó ekki niður­stöðu Alþing­is en hef­ur engu að síður af­leiðing­ar hér á landi.“

Áður hefur verið fjallað um um það á heimasíðu RéttarSigrún Ingibjörg Gísladóttir, lögmaður og einn af eigendum Réttar, rekur einnig nokkur mál fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um þessar mundir. Málin stafa frá hópi kvenna vegna brota gegn réttlátri málsmeðferð í ofbeldismálum sem eiga það m.a. sammerkt að þau voru lengi á borði lögreglu hérlendis og tafir voru á skýrslutökum bæði hjá sakborningum og vitnum. Í síðustu viku flutti Ríkisútvarpið frekari fréttir af framvindu málanna og kom fram þar að dómstóllinn hafi samþykkt átta af þeim níu málum sem kærð voru og krafið íslenska ríkið svara við tilteknum spurningum um málsmeðferðina.

Í fréttinni greindi frá að íslenska ríkið hafi hafnað bótaskyldu í málunum og skilað greinargerð sinni með svörum og vörnum í fyrri helmingi málanna. Umbjóðendur Réttar hafa einnig skilað sínum greinargerðum og sagði Sigrún um það:

„Við erum að benda á ákveðinn kerfisbundinn vanda, og með því að skila greinargerðum í átta málum á tiltölulega stuttu tímabili, þá er það gagnlegt til að sýna fram á að það er það sama sem við erum að kvarta undan eða mjög oft.“

Fleiri lögmenn Réttar hafa sérþekkingu er lýtur að rekstri mála fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og er þar nærtækast að nefna að Védís Eva Guðmundsdóttir flutti nýlega erindi á Lagadeginum um réttarfar við dómstólinn og málarekstur fyrir yfirdeild hans.