Fréttir / News

Sigur Adolfs Inga í eineltismáli gegn RÚV

  |   Fréttir af stofunni

Í gær féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem Ríkisútvarpinu var gert að greiða Adolf Inga Erlingssyni, umbjóðanda Réttar, bætur að fjárhæð 2,2 milljónir króna auk málskostnaðar. Bæði er um að ræða miskabætur fyrir einelti og skaðabætur vegna fjártjóns í kjölfar ólögmætrar uppsagnar. Sigurður Örn Hilmarsson hrl., einn af eigendum Réttar, flutti málið fyrir hönd Adolfs Inga í héraði.

Héraðsdómur taldi sýnt fram á að yfirmaður Adolfs Inga hafi gengið á bak orða sinna eftir að hún lofaði honum óbreyttum launakjörum þrátt fyrir breytingar á verkefnum hans. Þá taldi dómurinn að afgreiðsla á eineltiskvörtuninni hefði verið til þess fallin að gera lítið úr honum. Að mati dómsins féll þessi tilgreinda háttsemi því undir skilgreiningu eineltis og fól í sér ólögmæta meingerð gegn æru hans eða persónu þannig að það hafi valdið honum miska.

Að mati dómsins þótti Ríkisútvarpið ekki hafa sýnt fram á að málefnalegar ástæður hefðu legið að baki uppsögn Adolfs Inga og því var hún talin ólögmæt og umbjóðandanum dæmdar skaðabætur úr hendi Ríkisútvarpsins. Enn fremur taldi héraðsdómur að sú framganga að segja umbjóðanda Réttar upp eftir 22 ár í starfi án þess að leggja fullnægjandi grundvöll að þeirri ákvörðun hafi verið meiðandi í hans garð og voru honum því einnig dæmdar miskabætur af þeim sökum.

Niðurstaða málsins endurspeglar mikilvægi þess að vinnuveitendur séu með virkt vinnuverndarstarf og taki faglega á eineltismálum í samræmi við lög og reglur. Markmið slíkra reglna er að tryggja öruggt starfsumhverfi þannig að starfsmenn njóti velsældar og virðingar í starfi. Vanræksla atvinnurekanda í þessum efnum getur hæglega leitt til þess að viðbrögð við einelti bitni á þolandanum með ósanngjörnum hætti. Þegar gerandinn gegnir stöðu yfirmanns eiga þolendur sérstaklega erfitt með að tjá sig um og tilkynna það einelti sem þeir verða fyrir. Það er hugsanlega ástæða þess að tiltölulega fá eineltismál hafa hingað til rekið á fjörur íslenskra dómstóla.

Umfjöllun Mbl.is má finna hér.
Umfjöllun RÚV má finna hér.
Umfjöllun Nútímans má finna hér.
Umfjöllun Vísis má finna hér og hér.