Fréttir / News

Myndir: Úr kvöldfréttum RÚV og Stöðvar 2

Sigurður og Sigrún fjalla um réttindi brotaþola

  |   Fréttir af stofunni

Mikil umræða hefur skapast um stöðu brotaþola í kynferðisbrotamálum hérlendis undanfarin misseri og jók þáttur Kveiks í fyrradag enn á þá umræðu. Í gærkvöldi voru Sigrún Ingibjörg Gísladóttir og Sigurður Örn Hilmarsson, lögmenn og eigendur á Rétti, fengin til að tjá sig um stöðuna í kvöldfréttatímum RÚV og Stöðvar 2.

Sigrún Ingibjörg fjallaði um efnið í samhengi við rekstur hennar á málum níu kvenna fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sem áður hefur verið fjallað um á heimasíðunni. Í viðtalinu benti Sigrún á að:

„Það er hópur kvenna sem eru ósáttar við málsmeðferðina í þeirra máli hjá lögreglunni á Íslandi og það er verið að gera athugasemdir við að rannsóknin sé ekki í samræmi við skyldur Íslands samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu og það er auðvitað umhugsunarefni þegar hópur kvenna er ósáttur við málsmeðferðina hvort það þurfi ekki að hugsa upp á nýtt hvernig við erum að rannsaka þessi mál.“ líkt og fram kemur í frekari fréttum RÚV.

Sigurður Örn fjallaði um stöðuna með hliðsjón af boðuðum lagabreytingum dómsmálaráðherra og sem formaður Lögmannafélags Íslands. Hann sagði:

„Ég held að það sé ekki gott að brotaþolinn sé, eða í það minnsta upplifi sig, sem áhorfanda einhvern veginn í eigin máli sem að hafi þá ekkert um að segja. Við þurfum að bera virðingu fyrir því.“

og

„Það er hryggilegt að líta til þess ef að málsmeðferðin sjálf er að auka áþján brotaþolanna þannig að ég held í þessu eins og í flestu öðru að þá skiptir auðvitað máli að fá upplýsingar, geta fylgst með, það sé besta leiðin til þess að auka traust og tiltrú á kerfinu okkar.“

Sigrún, Sigurður og aðrir lögmenn Réttar hafa mikla reynslu af aðstoð við einstaklinga í sakamálum, bæði sem réttargæslumenn og verjendur.