Fréttir / News

Sigurður Örn á málþingi um breytingar á stjórnarskránni

  |   Fréttir af stofunni

Sigurður Örn Hilmarsson, eigandi á Rétti og formaður Lögmannafélags Íslands, flutti erindi í gær á málþingi um greinargerð Hafsteins Þórs Haukssonar, dósents við lagadeild Háskóla Íslands, um hvort þörf sé á breytingum á dómstólakafla stjórnarskrárinnar.

Málþingið fór fram í Háskólanum á Akureyri, og var haldið af forsætisráðuneytinu, í samvinnu við Háskólann á Akureyri, Háskólann á Bifröst, Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands. Yfirskrift málþingsins var „Er þörf á breytingum á dómstólakafla stjórnarskrárinnar?”

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti opnunarávarp og Hafsteinn Þór Hauksson gerði grein fyrir greinargerð sinni um dómstólakafla stjórnarskrárinnar.

Sigurður fjallaði því næst um tillögurnar og að hann teldi greinargerðina vel unna og málefnalega. Jákvætt væri að kveða á um sjálfstæði dómstóla í stjórnarskránni sjálfri. Sigurður benti þó á að huga þyrfti að því hvort veita ætti heimild fyrir því að undanskilja lögsögu dómstóla tiltekin mál og láta þau sæta úrlausn sérdómstóla, s.s. greinargerðin geri ráð fyrir. Að þessu leyti sé hún ólík tillögum stjórnlagaráðs frá árinu 2011. Mögulega sé tilefni til að kveða nánar á um útfærslu skipan dómsvalds á Íslandi.

Í erindi Sigurðar kom fram að þær breytingar sem fram koma í greinargerðinni séu af hinu góða og að tillögur um rétt borgaranna til að fá úrlausn sjálfstæðra dómstóla um hvort handhafar framkvæmdar- og löggjafarvalds misbeiti valdi sínu séu vel ígrundaðar. Þá telur Sigurður það tilraunarinnar virði að reyna að útfæra fyrirkomulag um skipan dómara í stjórnarskránni og bendir á að eftir atvikum kunni að vera tilefni til að geta þess hvað skuli gera ef ráðherra hefur misbeitt valdi sínu þannig að veiting dómaraembættis brjóti í bága við lög eða stjórnarskrá.

Í kjölfar erindisins fóru fram pallborðsumræður þar sem sérfræðingar og fulltrúar stjórnmálanna áttu sæti. Voru það Eiríkur Elís Þorláksson, forseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík, Davíð Þór Björgvinsson, Landsréttardómari og prófessor við lagadeild Háskólans á Akureyri,  Sunna Axelsdóttir, héraðsdómslögmaður, auk Sigurðar Arnar og Hafsteins Þórs. Fyrir hönd stjórnmálanna sátu Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins og Logi Einarsson, þingsflokksformaður Samfylkingarinnar í pallborðinu.

Pallborðsumræður voru líflegar og komu fram ólík sjónarmið um greinargerðina. Meðal annars kom fram að eðlilegt sé að gerðar verði breytingar á stjórnarskránni, en þó megi velta fyrir sér nauðsyn þess ef breytingarnar fela einungis í sér að festa gildandi venjur. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, spurði Sigurð Örn út í ábendingu hans um að stjórnarskrárákvæði um að undanskilja megi lögsögu dómstóla þurfi að hugsa vel. Sigurður sagði þau rök sem hann hafi séð fyrir því að afmarka skipan dómstóla ekki með nákvæmari hætti í stjórnarskrá ekki nægilega sannfærandi. Þá benti hann m.a. á að í dönsku stjórnarskránni sé að finna ákvæði um Ríkisréttar (sem samsvarar hinum íslenska Landsdómi), en bann sé lagt við því að stofna til annarra dómstóla. Hann hallist að því að skapa eigi ramma um þá dómstóla sem starfi í landinu, svo löggjafinn til dæmis ekki tekið sérstaka málaflokka undan Hæstarétti, s.s. ef þingið telur hina hefðbundnu dómstóla of íhaldssama eða framsækna í beitingu réttarreglna. Hafsteinn Þór taldi ákvæðið ekki vera til þess gert að opna fyrir nýja dómstóla, heldur festa í sessi það sem þegar er gert, s.s. þegar endurupptökudómi var komið á fót með lögum.

Nálgast má greinargerð Hafsteins Þórs Haukssonar hér.